The Travel Book heitir ný bók (september 2004) eftir Roz Hopkins sem ætti að höfða til ferðalanga. Þetta er heljarinnar doðrantur, 444 síður með 1200 myndum og er hvorki meira né minna en uppflettirit fyrir öll lönd veraldar, 230 talsins! Það eru höfundar Lonely Planet bókanna sem þarna hafa sett saman tvær blaðsíður um hvert einasta land.
Svo vitnað sé í Brad Hooper, frá American Library Association, þá er í bókinni fjallað um hvað eigi að upplifa í hverju landi til að kynnast því sem best, hvaða bækur eigi að lesa áður en ferðin hefst, hvaða matur og drykkur er einkennandi fyrir hvert land og hvaða tónlist á að hlusta á í tengslum við ferðina. Síðast en ekki síst er nefnt hvaða óvæntu hlutir bíða ferðalangsins í viðkomandi landi.
Þessi bók fær afar góða dóma og þó hún sé greinilega ekki ætluð til að troða ofan í ferðatösku þá er hér á ferð spennandi bók í ferðahandbókasafnið!