Orð eins og virðuleiki og glæsileiki koma fyrst í hugann þegar minnst er á Búdapest. Ekki þarf annað en að standa um stund á Hetjutorginu (Hosök Tere) til að skilja þessi orð og finnast maður mega sín lítils… Kannski ekkert skrítið að Búdapest er gjarnan nefnd "París" Austur-Evrópu.
Lágfargjaldafélög fljúgja gjarnan til Búdapest frá t.d. London.
Tilurð og skipulag
Búdapest varð til í sinni núverandi mynd árið 1873 eftir að þrjár borgir sameinuðust, Buda, Obuda og Pest. Sagt er að Búdamegin búi efnameiri borgarar og þar svífur sagan um götur og torg … hvert sem litið er. Í Pest liggur miðborgin og viðskiptalífið.
Búdapest skiptist í 22 borgarhluta (kerülets) sem allir hafa sín nöfn. Þar af tilheyra 16 þeirra Pest og hinir Búda. Þegar heimilisföng eru skrifið í Búdapest fylgir ávallt með númer borgarhlutans í rómverskum tölum, t.d. XII. Csörsz utca 9. Þetta þýðir að Cxörsz utca nr. 9 er í 12. borgarhlutanum. Þetta er mikilvægt að vita, því sömu götunöfnin geta verið til í fleiri en einum borgarhluta!
Blómaskeið og glæsibyggingar
Eitt mesta blómaskeið borgarinnar var í kringum aldamótin 1900. Þá var Búdapest miðstöð Austur-Evrópu og má nefna að 1896 héldu Ungverjar upp á 1000 ára afmæli sitt og byggðu um svipað leyti margar af glæsilegustu byggingum borgarinnar, s.s. þinghúsið, óperuna og Hetjutorgið.
Helstu staðir
Það er vel til fundið að byrja heimsókn til Búdapest uppi á Gellért hæðinni hjá virkinu mikla "Citadel" sem Austurríkismenn byggðu.
Gellért hæðin er hæsti punkturinn í Búdapest og sést ákaflega vel yfir Pest frá þeim stað. Dóná rennur í gegnum borgina og aðskilur Búda (austan megin) og Pest (vestan megin) og frá hæðinni blasa m.a. við nokkrar af þeim átta brúm sem tengja borgarhlutana. Einnig má sjá yfir til hins nýja Þjóðleikhúss borgarbúa (byggt 2002) en það lítur út eins og risavaxin ritvél…. og þinghússins glæsilega með sínum 356 turnum.
Ofan af Gellért hæð blasir einnig við kastalahæðin með Konungshöllinni sem í dag hýsir nokkur af merkustu söfnum landsins og Kastalahverfið (sérlega skemmtilegt!) þar sem miðpunkturinn er Torg hinnar heilögu þrenningar og hin stórkostlega Matthíasarkirkja.
Loks má nefna Margrétareyju (Margit-sziget) sem stendur úti í miðri Dóná og hýsir stóran skemmtigarð, með kaffihúsum, böðum, sundlaugum og fleira sem gleður hjörtun stór og smá.
Í rauninni má segja að flestar af merkustu byggingum borgarinnar liggi nálægt Dóná þar sem hún streymir í gegnum borgina.
Miðborgin
Í miðborginni, Pest megin, er gaman að koma á göngugötuna Váci utca. Ekki rugla henni saman við Váci út sem er mikil og stór umferðargata!
Einn stærsti markaður í Búdapest er í stóru markaðshöllinni, Förvam körút 1-3, á tveimur hæðum. Það er hreint ævintýri að koma þarna inn og skoða vörurnar sem á boðstólum eru. Niðri ber mikið á fersku grænmeti (líka niðursoðnu í krukkum, fagurlega raðað), ávöxtum, alls kyns ungverskum pylsum og rauðum pipar (að sjálfsögðu) svo eitthvað sé nefnt. Uppi á annarri hæð gefur hins vegar að líta vefnaðarvörur, dýrindis útsaumaða dúka af öllum mögulegum stærðum og gerðum sem og útsaumuðu blússurnar sem Ungverjar eru svo frægir fyrir.
Heilsuböðin
Það er ástæða til að vekja sérstaklega athygli á heilsuböðunum í Búdapest sem eru afar vinsæl bæði af Ungverjum og ferðamönnum. Þeirra stærst er það sem tilheyrir Gellért hótelinu.
Samgöngur
Það er auðvelt að komast á milli í Búdapest - gott samgöngukerfi sem byggir ýmist á neðanjarðarlestum, strætisvögnum eða sporvögnum. Einnig er afar gaman að fara í siglingu á Dóná og njóta þess að "líða" framhjá hverri glæsibyggingunni á fætur annarri.
Drykkjarvatn
Vatnið í Búdapest er yfirleitt talið í lagi til drykkjar. Ungverjar kaupa þó oft sjálfir ölkelduvatn sem heiti ásványvíz á ungversku.
Nokkur ungversk orð
Það er auðveldara að átta sig í Búdapest ef nokkur orð eru með í farteskinu sem létt geta lífið þegar þarf að rata eftir kortum og götumerkingum:
utca: (skammstafað u.) stræti
út: gata
körút (skammstafað krt.) breiðgata
tér: torg
köz: lítil gata/stræti
liget: garður
sziget: eyja
híd: brú
sor: röð
part: árbakki
pályaudvar: (skammstafað pu.) járnbrautarstöð
állomás: stöð
Hótel og fjölbreyttir gistimöguleikar í Búdapest