Gardavatnið - Lago di Garda (sem eitt sinn hét Benaco) og umhverfi þess, er af mörgum talið eitt fallegasta landssvæði Ítalíu. Það liggur á Norður-Ítalíu, rétt við rætur Alpafjallanna.
Vatnið, sem er stærsta stöðuvatn Ítalíu, er að mestu umlukið fjöllum en syðri endi þess snertir aðeins Pósléttuna. Gardavatnið er raunar ekki bara vatn, heldur leynast þar einnig litlar víkur, strandlengjur fyrir sólbaðsunnendur og eyjar.
Sítrónurækt
Í þúsundir ára hefur þetta svæði verið byggt mönnum, og þar hefur þrifist menning se sem smátt og smátt hefur haft sín áhrif á landslagið. Á 16., 17. og 18. öld var t.a.m. mikil sítrónurækt við vatnið en það hefur síðan lagst af þó minjar um það megi vissulega enn sjá víða, t.d. hjá þorpinu Limone.
Vindasöm paradís
Yfir 30 tegundir vinda blása um vatnið (hver með sitt nafn) og gera það að verkum að vatnið, einkum norðurhluti þess, er hreinasta paradís fyrir siglingaáhugamenn og seglbrettaiðkendur. Reyndar er sagt að við Garda sé veðrið einungis tvenns konar; vindasamt eða mistur.
Fjallaáhugamenn nýta snarbrattar fjallshlíðar við vatnið til klifuræfinga og hjólagarpar hafa líka nóg við að vera. Gönguleiðir finnast þarna út um allt.
Þrjár sýslur gera tilkall til þessa svæðis, Brescia, Trento og Verona. Við vatnið eru alls 24 bæjarfélög (þó þorpin séu fleiri) og hvert þeirra hefur sín sérkenni og á sér einstaka sögu. Margir Íslendingar hafa m.a. dvalist í Riva del Garda, Limone, Garda, Desenzano, Peschiera og á fleiri stöðum við þetta fallega vatn.
Við vatnið má víða sjá strompa á húsum því enn er sums staðar hitað upp með eldivið.
Skoðunarferðir frá Garda
Það er svo ótalmargt hægt að gera við Gardavatnið. Það er auðveldlega hægt að taka heilan dag og meira bara í að dóla á milli þorpanna við vatnið og siglingu á Gardavatni ætti enginn að sleppa.
Borgirnar Verona og Feneyjar eru í seilingarfjarlægð og sömuleiðis fallegi bærinn Rovereto með samnefndum kastala og borgin Trento sem leynir á sér.
Hótel við Gardavatnið
Uppfært nóv. 2010