Það líður að karnivalhátíðinni í Nice í Suður-Frakklandi en það hefst föstudaginn 13. febrúar n.k. (enginn hjátrúarfullur á þeim slóðum!) og stendur til 25. febrúar (2005). Þetta er einn helsti viðburðurinn yfir vetrartímann á Frönsku Rivierunni og borgin glæðist nýju lífi á meðan hátíðahöldin standa yfir. Óhætt er að segja að blóm séu í aðalhlutverki þessa daga enda borgin fræg fyrir blóm og blómarækt í héraðinu.
Nice er fimmta stærsta borg Frakklands (436.000 íb.), stendur í Provence héraði og er afar fjölsóttur ferðamannastaður. Höfnin í Nice er ein helsta sportsiglingahöfn Frakklands og snekkjurnar sem liggja þar við bryggju hafa án efa kostað nokkrar krónur og jafnvel gott betur.
Gamli borgarhlutinn í Nice er afskaplega fallegur. Hann nýtur sín best ef farið er upp í hæðina sem liggur fyrir ofan borgina þar sem hægt er að njóta útsýnis yfir gömlu Nice. Þangað er t.d. hægt að komast með því að taka litla "ferðamannalest" frá breiðgötunni sem liggur í boga meðfram ströndinni og sólbaðsdýrkendum, Promenade des Anglais. Hún er sennilega eitt vinsælasta myndefnið frá Nice.
Það er algjör skylda að heimsækja blómamarkaðstorgið Marché aux fleurs þar sem sjá má yfir 100 blómasölubása og alla regnbogans liti og blómategundir.
Missið svo ekki af Palace de la Justice á leið frá blómamarkaðinum inn í þröngar verslunargötur gömlu borgarinnar. Þar er auðveldlega hægt að missa sig í skemmtilegum búðum og veitingastöðum. Takið eftir verslununum sem selja keramik frá Provence, fallega gripi úr ólívuviði, osta, lavender í ýmsum útgáfum og síðast en ekki síst fallegu Provence efnin sem hægt er að nota í púða, dúka, gardínur og fleira.
Skammt frá Nice, nánar tiltekið milli Nice og Monaco, stendur lítill bær, Eze, en þangað er gaman að koma til að skoða sýningarsvæði ilmvatnsframleiðandans Fragonard, en þar er hægt að sjá hvernig ilmvötn, sápur, krem og ýmsar snyrtivörur eru framleiddar og jafnvel að versla "jólagjafirnar" á heildsöluverði... - Leiðsögn á ýmsum tungumálum.
Hitastig í Nice:
Gisting í Nice frá Booking.com
Upplýsingasíða um Nice fyrir ferðamenn