Prag er "stemming". Prag er menning. Prag er list. Prag er …. engu lík. Þangað er hægt að koma aftur og aftur og njóta hvers einasta andartaks. Borgin er þó ekki öll jafn falleg. Gangið aðeins út fyrir miðborgina og þá gefur að líta grámuskulegar íbúðablokkir sem minna á árin áður en "járntjaldið" féll.
Einhvern veginn hefur mér alltaf þótt Prag vera svo langt í burtu - en hið rétta er að það eru ekki nema 384 km milli München og Prag og 294 km milli Vínarborgar og Prag. Vegalengd sem lítill vandi er að fara á hluta úr degi.
Að koma til Prag
Ef komið er akandi til Prag frá t.d. Austurríki liggur leiðin í gegnum afskaplega fallegt, skógi vaxið landslag og akra. Vegirnir eru yfirleitt frekar mjóir og vart hægt að aka á meira en 80-90 km hraða.
Lágfargjaldaflugfélög eins og Ryanair og Easyjet fljúga meðal annars til Prag.
Gisting
Það er vægast sagt um margs konar gistingu að ræða, hótel af öllum stærðum, gerðum og gæðaflokkum í Prag. Einnig er oft hægt að leigja íbúðir á hagstæðu verði.
Helstu upplýsingar
Wenceslas torg
Wenceslas torgið (Vaclavské namestí) í Prag er nokkurs konar útgangspunktur fyrir ferðalanga jafnt sem borgarbúa. Það tilheyrir "nýja bæjarhlutanum" Nové Mesto. Það var á Wenceslas torgi árið 1918 þar semTékkland var lýst lýðveldi. Það var líka inn á þetta torg sem sovéskir skriðdrekar brunuðu inn á í ágúst 1968 og bundu enda á "vorið í Prag".
Wenceslas torgið er þó gott betur en torg því það er ein helsta verslunargata Prag. Við efri enda þess gnæfir Þjóðminjasafnið í Prag og svolítið til vinstri við það Ríkisóperan. Enn lengra til vinstri en ekki í sjónmáli stendur síðan járnbrautarstöð Pragbúa. Við neðri enda Wenceslastorgs er stutt í gamla og fallega miðbæinn (Staré Mésto) upplýsingamiðstöð ferðamála (Prague Tourist Center), Karlsbrúnafrægu o.fl.
Það væri óðs manns æði að ætla sér að telja hér upp allt það sem Prag hefur upp á að bjóða og allt það sem gaman er að skoða. Látum duga að nefna hér aðeins lítið brot.
Ríkisóperan
Það er ótrúlegt úrval lista- og menningarviðburða í Prag, ekki síst yfir sumartímann og engin vandræði fyrir flesta að finna eitthvað við sitt hæfi.
Í mínum huga er alveg ógleymanleg upplifun að fara í Ríkisóperuna í Prag þar sem tónskáldið Beatrich Smetana var óperustjóri um hríð. Það er alveg stórglæsilegt að innan, logagylltar stúkur með rauðum tjöldum og andrúmsloftið og stemmingin engu lík. Hægur vandi er að tryggja sér miða í óperuna og margt fleira í gegnum Bohemia Ticket.
Black and white theatre
Önnur "skylduheimsókn" er í svokallað "black and white" theatre - en þannig leikhús er einkennandi fyrir Prag, þar sem leikið er með ljós og skugga á stórkostlegan hátt. Þau eru nokkur leikhúsin sem bjóða upp á sýningar af þessu tagi, en ég hef góða reynslu af Theatre Image. Hafið engar áhyggjur af tungumálaörðugleikum, það er sjónræna upplifunin sem skiptir máli.
Góði dátinn Svejk
Fyrir þá sem lesið hafa Góða dátann Svejk eftir Jaroslav Hasek, er ekki hægt að ganga fram hjá kránni sem hann hélt til á í sögunni góðu, Hostinec U Kalicha, og fá sér þar a.m.k. bjór ef ekki heila máltíð og kannski að kaupa svo sem eins og eina dátahúfu…
Miðbærinn
Miðbærinn í gamla bænum (Staré Mésto) er eiginlega "sál" borgarinnar og hann þarf að skoða og upplifa með gamla ráðhústorginu (Staroméstské náméstí), ráðhúsinu og turninum með stjörnuúrinu. Á hádegi safnast þar alltaf mikill mannfjöldi og fylgist með turninum þar sem einn hluti klukkunnar "fer af stað". Dauðinn birtist í líki beinagrindar með stundaglasið í annarri hendinni og á eftir honum Kristur og postularnir tólf.
Það þarf líka að ganga í gegnum gyðingaghettoið gamla með synagogunni "gömlu-nýju" og sérkennilega grafreitnum þeirra, sem er í dag annar elsti grafreiturinn sem varðveist hefur frá tímum nazista. Takmarkað pláss olli því að grafirnar "hlóðust upp", jarðvegur var sóttur annars staðar frá og sífellt bætt ofan á. Talið er að grafirnar liggi í 12 lögum.
Karlsbrúin
Fara þarf pílagrímsferð yfir Karlsbrúnasem liggur yfir Moldá (helst líka að kvöldlagi!) og gefa sér tíma til að njóta tónlistarmanna sem oft spila fyrir gesti og gangandi á brúnni og heilsa upp á styttuna af heilögum John af Nepomuk. Og svo má humma í huganum nokkra tóna úr tónverkinu fallega, Moldá, eftir Smetana…
Kastalahverfið og Gullna gatan
Svo er það kastalahverfið og kastalinn mikli - Hradcany, hinum megin við ána Moldá, sem rennur í gegnum Prag. Þar er núna aðsetur forseta Tékklands en fyrr á öldum réðu þarna Habsborgarar eins og víða annars staðar í Evrópu. Ekki má gleyma dómkirkjunni St. Vitus, stærstu og mestu kirkjunni í Prag. Kastalahverfið geymir mikla og örlagaríka sögu sem gaman er að kynna sér áður en gengið þar um.
Úr kastalahverfinu er hægt að ganga niður af hæðinni (nú eða öfugt!) og er þá gengið í gegnum Gullnu götuna (kostar inn) sem hýsir í dag handverksfólk og pínulitlar smábúðir með vörum þeirra en hýsti áður varðmenn Rudolfs II. keisara og efnafræðinga hans sem gerðu tilraunir með gullgerð…
Sigling og neðanjarðarlestir
Loks má nefna að sigling á Moldá er verulega skemmtileg á hvaða tíma dags sem er. Nóg er af fyrirtækjunum sem bjóða slíkar siglingar og er einfaldast að spyrjast fyrir um og/eða kaupa miða í slíkt í Prague Tourist Center fyrir neðan Wencelas torgið.
Það er auðvelt að nota neðanjarðarlestir í Prag og mjög ódýrt. Á Wencelas torgi eru stöðvar, vel merktar en látið ykkur ekki bregða við þó leiðin liggi óvenju langt "niður" í jörðina…
Ef leita þarf læknis
Ef heilsan skyldi bila í Prag, þá er hér ábending um spítala sem erlendir ferðamenn leita gjarnan til. Adressan: Homolka P-5, Röntgenova 2. Sagt er að þetta sé besti spítalinn í Prag og þó hann virki ekki jafn "tæknivæddur" og Landspítalinn okkar, þá er gott að leita þangað. Munið bara að taka kvittanir með heim, líka fyrir leigubíl ef þið takið hann til og frá spítalanum!
Salerni
Það eru ágæt klósett inni á MacDonalds á Wenceslastorgi, kostar smá en þau eru hrein og snyrtileg.
Skemmtilegar verslanir
Hér hefur auðvitað hver sinn smekk, en ég fell auðveldlega fyrir hlutum úr smíðajárni en þeir eru afskaplega algengir í Prag. Neðarlega á Wenceslastorgi má oft sjá bás þar sem verið er að hamra járnið og eldglæringarnar fjúka í allar áttir.
Ég held mikið upp á verslun sem selur fallega smíðajárnshluti, t.d. alls kyns kertastjaka og kerti og heitir Red Crocodile, Karlova 23 (Vonandi er hún þar ennþá!)
Önnur verslun sem gaman er að nefna selur skemmtilegar tuskubrúður, sumar ansi stórar, í glaðlegum litum og með stórum vösum sem nýtast vel undir dót í barnaherbergi. Þetta hef ég ekki séð annars staðar: Textilní hracky a suvenýry: Veleslavínova 3/59 eða Dárky - Starom. Náméstí.
Leigubílar
Ef dvalið er á hóteli er ágæt regla að láta hótelið panta leigubíla, svo tryggt sé að hringt sé á góða bíla. Ef teknir eru leigubílar í miðbænum er sjálfsagt að semja um verðið áður en stigið er inn í bílinn. Þá kemur ekkert á óvart. Snjallt er að vera búinn að spyrja á hótelinu hvað kosti u.þ.b. með leigubíl frá miðbænum og til hótelsins.
Hitastig í Prag:
Hótel og fjölbreyttir gistimöguleikar í Prag