Riva del Garda er fyrsti "suðræni" staðurinn sem ferðamenn sjá þegar þeir koma til Ítalíu yfir Brennerskarðið (Brennero) og niður að Gardavatninu. Þessi nyrsti hluti vatnsins er frægur fyrir heiðan himinn og kristaltært vatn.
Skáldin og Riva
Hér á öldum áður var þessi 15.000 manna bær afar vinsæll af rithöfundum og ljóðskáldum þegar svæðið var undir Austurríkismönnum. Nietzsche, Kafka, Mann, D.H. Lawrence og fleiri heimsóttu gjarnan bæinn og enn í dag koma flestir ferðamenn til Riva frá svæðum handan Alpafjallanna enda bærinn orðlagður fyrir gestrisni.
Endurminning um siestu í Riva
Það er "siestutími" í Riva. Þrjátíu stiga hiti og sólin hátt á lofti. Ég sit í skugga á litlu torgi í miðjum bænum og hlusta á niðinn úr drykkjarvatninu sem rennur stöðugt úr krana rétt hjá. Ítalskar signorur kallast á milli húsa.
Rétt hjá mér sitja tveir ungir bræður að spila lúdó í skugganum af trjánum til hliðar við torgið. Öðru hverju heyrast fjarlægar drunur í litlum mótorhjólum og vespum. Á torginu eru dúfur á vappi en forða sér með vængjaslætti þegar ég hreyfi mig. Það glymja hlátrasköll úr bakgörðum. Nokkur börn hlaupa til og kæla sig undir vatnskrananum og bleyta á sér heita kollana. Hundgá. Ég horfi með aðdáun útundan mér á fallegt, ítalskt par ganga framhjá; bæði sólbrún, grönn og stælt - með tískusólgleraugu (Armani?) - hún í stuttu pilsi með hárið uppsett og í sandölum með himinháum hælum. Úff! Einungis ítalskar konur geta gengið á svona hælum á ítölskum miðaldastrætum...
"Notte di fiaba"
Siestan er búin og bærinn umbreytist í ævintýraland. Það gerist einu sinni á ári. Síðasta laugardaginn í ágúst er haldin hátíðin "Notte di Fiaba" - næturævintýri með tónlist, ljósasýningum og töfrandi flugeldasýningu yfir vatninu. Bæjarbúar minnast þannig sögulegs atburðar sem átti sér stað fyrir mörgum öldum, árið 1439, þegar Riva var undir Mílanóbúum. Feneyjabúar vildu sölsa undir sig bæinn og til að koma aftan að hersveitum Mílanóbúa, var sendur galeiðufloti frá Feneyjum frá Adríahafinu og upp Adige fljótið, yfir Lake Loppio og San Giovanniskarðið yfir til Torbole og Garda. Mikill bardagi átti sér síðan stað fyrir utan Maderno, 29. september 1439 þar sem Mílanóbúar sigruðu.
Á hverju æfintýrakvöldi á sér stað keppni um það hver eigi að taka þátt í "bardaganum mikla á vatninu". Þar takast á lið frá hinum ýmsu bæjarhlutum í Riva og þurfa þátttakendur að sanna snilli sína í siglingum. Vinningsliðinu er fylgt til hafnarinnar í skrúðgöngu og skrautlegum búningum og síðan um borð í galeiðu á vatninu.
Næturævintýrinu fylgir mikill fjöldi fólks og mikil stemming. Fólk þyrpist í bæinn að kvöldi hátíðardagsins og raðar sér í þéttri fylkingu í kringum höfnina þannig að vel sjáist út á vatnið og njóta megi flugeldasýningarinnar kl. 22.00 sem best. Líkja má þessu við n.k. tvöfalda Menningarnótt eins og hún fer fram í Reykjavík.
Í Riva er upplagt að fá sér borð að kvöldi til á Hotel Sole sem liggur alveg niðri við vatnið, njóta þar lifandi tónlistar og taka nokkur dansspor.
Skoðunarferðir frá Riva
Það tekur um 2 1/2 til 3 klst. að aka til Feneyja frá Riva.
Lago di Ledro er afskaplega fallegt vatn í 700 m hæð vestan megin við Riva. Ekki eins margt fólk og niðri við Garda og hægt að njóta sólar, fara út á vatnið á hjólabátum, fara í göngutúra og margt fleira. Upplagt er að fá sér pizzu á veitingastaðnum Franco e Adriana í Pieve di Ledro.
Skemmtigarðurinn Gardaland stendur sunnan við Gardavatn og tekur aðeins um klukkustund og korter að aka þangað.
Afbragðs vínsmökkun er á vínbúgarðinum Madonna delle Vittorie rétt hjá þorpinu Arco sem stendur fyrir ofan Riva, fjær vatninu.
Fyrir þá sem hafa gaman af fallegum skóm... er upplagt að skreppa í skóverksmiðjuna í þorpinu Dro, en þangað er um 15 mínútna akstur frá Riva.
Sigling á Gardavatninu
Ekki er hægt að heimsækja Riva og Gardavatnið án þess að fara í siglingu um vatnið - t.d. með Luigi Crosina frá Riva, s. 0464/520297. Það er mjög gaman að sigla til Limone en þangað er um 20 mín. sigling frá Riva og síðan hálftíma sigling yfir vatnið til Malcesine. Frá Malcesine er upplagt að fara með kláf upp á fjallið Baldur - Monte Ubaldo.
Kláfurinn gengur á hálftíma fresti frá kl. 8:00 og skipta þarf á einum stað og taka annan kláf lengra upp á fjallið. Upp á fjallinu er stórkostlegt útsýni, heimilislegar kýr á beit á og nauðsynlegt að gæta sín að stíga ekki í kúadellur sem prýða graslendið þarna uppi.
Uppi á fjallinu er veitingastaður, salerni og bar. Mikið er af fallegum göngustígum og dásamlegt útsýni yfir fjöllin við Gardavatnið. Sjá má hvernig þorpin liggja í dalverpum svo langt uppi fjallshlíðum að erfitt er að ímynda sér hvernig byggð getur haldist þar svona ofarlega.
Uppfært nóv. 2010