Bærinn Rothenburg liggur á hinni svokölluðu "rómantísku leið" í Þýskalandi. Þetta er lítil perla og svo litrík að stutt stopp dugar vart til að komast yfir það sem gaman væri að sjá. Bærinn er einn af best varðveittustu miðaldabæjum í Þýskalandi.
Hótel í Rothenburg
Söfn
Bærinn er afar ríkur af sögu, hefðum og skemmtilegum uppákomum. Í honum eru sérlega áhugaverð söfn, s.s. dúkku- og leikfangasafn, sögulegt safn sem sýnir aðstæður í 30 ára stríðinu, afar skemmtilegt "miðalda-glæpasafn" og margt fleira.
Jólabúð og jólamarkaður
Bæði börn og fullorðnir hafa án efa gaman af að líta inn í jólabúðina stóru sem selur ótrúlegt úrval jólavara allt árið og setur ímyndunaraflið vissulega á fleygiferð. En dýrt er drottins orðið þar... Í jólamánuðinum sjálfum er einn af frægustu og elstu jólamörkuðum Þýskalands haldinn í Rothenburg - Reiterlesmarkt. Markaðurinn, sem hefst í enda nóvember og lýkur skömmu fyrir jól, hefur verið haldinn síðan á 15. öld og dregur að sér þúsundir ferðamanna sem koma til að njóta stemmingarinnar í þessu fallega miðaldaumhverfi.
Aðkoma
Fyrir þá sem koma akandi til Rothenburg og eiga ekki pantað hótel, er best að leggja bílnum á bílastæðum rétt utan við gömlu borgarmúrana. Umferð um bæinn sjálfan er mjög takmörkuð og til að komast á bílnum inn þarf að sýna staðfestingu frá hóteli. Það er því gott að vera á góðum skóm áður en haldið er frá bílnum - göturnar eru líka hellulagðar þannig að ekki er gott að vera á neinum "spariskóm"!
Það er mjög gaman að ganga hringinn í kringum bæinn eftir borgarmúrunum - þeir eru um 2,5 km langir og víða hægt að fara upp eða niður.
Miðbærinn
Að standa í miðbæ Rothenburg er eins og að vera staddur inni í miðju ævintýri ef ekki bara Grimmsævintýri! Svo óvenjuleg og skemmtileg eru húsin þar allt í kring. Nokkrum sinnum á dag (kl. 11 og 12 og kl. 13, 14, 15, 21 og 22) má sjá "Meistertrunk" klukkuna í byggingunni sem kölluð er "Ratstrinkstube". Þá gefur að líta skemmtilega og myndræna serimóníu sem líkir eftir atburði sem gerðist á 17. öld, þegar Nusch Burgomaster bjargaði Rothenburg með því að taka veðmáli og drekka yfir 3 lítra af víni. Um hverja hvítasunnu er mikil hátíð þar sem þessa atburðar er minnst á táknrænan hátt.
Umfram allt gildir að njóta andrúmsloftsins í þessum skemmtilega miðaldabæ.
Uppfært nóv. 2010