Sardinía (Sardegna) hefur löngum verið sveipuð svolitlum ævintýraljóma. Eyjan hefur verið einangruð í gegnum tíðina og íbúarnir (Sardi) átt sér sína sérstöku menningu. Kannski ekki ósvipað Vestmannaeyjum og Íslandi… - en Sardiníubúar kalla Ítalíu einfaldlega "meginlandið". Íbúarnir inni í landi á Sardiníu tala enn sína sérstöku latínu-skotnu mállýsku og halda fast við forna siði og venjur.
Eyjan skartar ægifögru landslagi og ósnortinni náttúru. Þar þrífast ennþá villisvín, ernir og fálkar, bleikir flamingóar, dádýr og fleiri dýr.
Það er ólíklegt annað en að flestir geti fundið eitthvað við sitt hæfi á Sardiníu, hvort sem fólk leitar að gullfallegum ströndum, fornminjum, golfvöllum, einmanalegri víðáttu eða vill einfaldlega njóta einstakrar gestrisni íbúanna. Í júlí og ágúst er mestur átroðningur ferðamanna og veður einnig heitast og strandirnar fullar af fólki. Veðrið er yfirleitt afar þægilegt frá apríl og fram í október fyrir utan heitustu mánuðina sem áður voru nefndir.
Flugvellir eru við borgirnar Cagliari, Olbia og Alghero ásamt Tortoli og lágfargjaldaflugfélögin EasyJet og Ryanair fljúga til að mynda til eyjunnar.
Hægt er að komast með ferju frá meginlandinu frá borgunum Genova, La Spezia, Civitavecchia og fleiri stöðum á Ítalíu. Einnig frá Toulon og Marseille í Frakklandi.
Uppfært nóv. 2010