Það er líklegt að þeir sem leggja leið sína til Vínarborgar, láti ekki nægja að skoða borgina "utan frá", heldur hafi líka áhuga á að sækja tónleika, fara í Óperuna, líta inn í Keisarahöllina, skoða glæsileg híbýli í Schönbrunn höllinni ... svo eitthvað sé nefnt.
Hótel og ýmiskonar gisting í Vín
Mér hefur reynst vel að byrja dvöl í Vínarborg á því að heimsækja upplýsingamiðstöð ferðamála: Tourist Info Vienna, Vienna 1, Albertinaplatz / Maysedergasse, í grennd við Ríkisóperuna. Opið daglega frá kl. 9 - 17. Þar er hægt að fá margskonar bæklinga og hægt að gera sér grein fyrir hvað er á döfinni.
Annar möguleiki er að gerast áskrifandi að rafrænu fréttabréfi Vienna News og fá einu sinni í mánuði fréttir um allt það sem um er að vera í þessari miklu menningarborg.
Tónleikar í Vín
Það er hreint ógleymanleg upplifun að komast á góða tónleika í Vínarborg. Þá gildir einu hvort um er að ræða Mozart tónleika, Strausstónleika, eða eitthvað annað. Umhverfið og andrúmsloftið - það er engu líkt.
Musikverein í Vín með sínum gyllta sal sem við sjáum ætíð á nýársdag er afskaplega vinsæll tónleikastaður og andrúmsloftið engu líkt.
Tónleikar í Festsaal í Keisarahöllinni eru mikil upplifun. Þetta er stærsti og glæsilegasti salur hallarinnar og það var í þessum sal sem gestir keisaranna skemmtu sér. Stórar kristalsljósakrónur, rauð teppi og gylltar skreytingar... það hefur ekki verið amalegt að svífa um þarna um gólfin í léttum Vínarvalsi. Þarna leikur m.a. Das Wiener Mozart Orchester og gerir það glæsilega með svo laufléttum húmor að tónleikagestir veltast um af hlátri.
Vinsæll tónleikastaður í Vín með nokkrum tónleikasölum er Wiener Kursalon. Þar er bæði hægt að fara á Mozart og Strauss tónleika oft með söng og dansívafi. Þessi fallega bygging stendur í Stadtpark svo að jafnvel þó að ekki sé farið inn á tónleika má oft heyra óminn af yndislegri tónlist út í garðinn fyrir utan.
Hægt er að kaupa miða í gegnum netið á slóðunum hér að ofan og einnig á www.classictic.com og http://www.viennaconcerts.com/.
Krökkt er af sölufólki í miðborg Vínar í gömlum viðhafnarbúningum að selja miða á tónleika víðsvegar um Vínarborg og ekki er ólíklegt að stundum megi fá miðana ódýrari á síðustu stundum hjá þeim. En ef mikið liggur við... og fólk er ákveðið að fá miða á tiltekna tónleika, getur borgað sig að kaupa miða eitthvað fyrirfram.
Spænski reiðskólinn - Vetrarreiðskólinn
Það er mikil upplifun að sjá sýningu frá Spænska reiðskólanum í Keisarahöllinni. Vetrarreiðskólinn, salurinn þar sem sýningarnar fara fram, er glæsilegur barrokksalur milli Schweizerhof og Stallburg.
Á sýningunum bera knaparnir gamla búninga. Hinn keisaralegi reiðskóli var stofnaður af Karli VI keisara, sem árið 1580 hóf að rækta mjög gáfað hrossakyn og hreinræktað í Lippizza (norður af Trieste). Hrossin (Lippizzaner) eru fæddir svartir og verða síðar flestir hvítir. Í dag eru flest hrossin ræktuð í Piber, nálægt Köflach í Styriu.
Ef ekki er hægt að fá miða á sýningu, er stundum hægt að kaupa sig inn á morgunæfingu þegar verið er að þjálfa þessi fallegu hross.
Krúnudjásnin - Keisaraleg híbýli og Sisi.
Krúnudjásnin eru geymd á safni í þeim hluta keisarahallarinnar sem heitir Schweitzertor. Nafnið kemur frá keisaralegum lífverði, frá Sviss, sem hélt sig í þessari álmu hallarinnar á tímum Maríu Theresíu keisaraynju. Það er einnig hægt að skoða hluta af híbýlum keisaranna, ekki síst íbúð Sisi, eiginkonu Franz Josephs keisara sem var mjög ástsæl. Snjallt er að þiggja "hlustunartæki/heyrnartól" sem eru innifalin í aðgangseyrinum og geta þannig fylgst með frásögnum af þeim herbergjum sem farið er um. Nánari upplýsingar á vef keisarahallarinnar.
"Sachertorte"
Það er vinsælt meðal ferðamanna að smakka hina einu "sönnu" Sachertertu, annað hvort á Hotel Sacher, Philharmonikerstrasse, eða á Konditorei Demel, Kohlmarkt 18.
Sigling á Dóná.
Dónársiglingu er t.d. hægt að panta hjá DDSG Blue Danube Schifffahrt GMBH.
Hér hafa einungis verið nefndir fáeinir möguleikar af mörgum en eitt er víst að í Vín ætti engum að leiðast.
Hótel og ýmiskonar gisting í Vín
Upplýsingamiðstöð ferðamála í Vín