Fyrir þá sem vilja fljúga til Vínar á eigin vegum er hægt að með lágfargjaldaflugfélögum eins og t.d. Air Berlin frá London.
Hótel og ýmiskonar gisting í Vín
Vínarborg á sér langa og merka sögu eins og raunar allar hinar gömlu og grónu evrópsku borgir sem Íslendingar og aðrir njóta svo mjög að sækja heim.
Sögubrot
Vindobona hét þorpið sem Keltar byggðu við Dóná um 400 f. Kr. og Venia hét staðurinn (þá á stærð við Kópavog) árið 881 e. Kr.
Rómverjar réðust inn í Austurríki 150 árum f. Kr. og réðu lögum og lofum í margar aldir eftir það. Eftir þá liggja m.a. vatnsleiðslur í Vínarborg sem enn eru notaðar og vatnið úr þeim þykir afar gott!
Tyrkir komu í heimsókn (ekki beinlínis vinarheimsókn!) bæði á 16. og 17. öld og þó að þeim væri stökkt á flótta skildu þeir einnig eftir sig minjar… kaffibaunir… sem leiddu til þess að árið 1684 var opnað fyrsta kaffihús í Vín, Zur Blauen Flasche, í Domgasse, fyrir framan Stefánsdómkirkjuna. Vínarbúar sjálfir halda því fram að evrópsk kaffimenning rísi hæst í Vín – enn í dag.
Skipulag borgarinnar
Í Vín eru alls 23 hverfi (Bezirk). Borgin byggðist skemmtilega upp – miðborgin fyrst, umkringd rómverskum borgarmúrum (1. hverfið) og stækkaði síðan en ætíð nokkurn veginn í hring.
Og hvað er svo hægt að gera sér til skemmtunar og fróðleiks í Vínarborg? Úr vöndu er að ráða. Borgin er óendanleg uppspretta spennandi möguleika. Það er þó tilvalið að byrja á góðum göngutúr og skoða utanfrá nokkrar af þekktustu byggingum borgarinnar.
Ríkisóperan
Við byrjum á horninu á Kärtnerstrasse og Opernring og göngum í áttina að Ríkisóperunni í Vín. Óperan var fyrsta byggingin á Opernring sem lokið var við að byggja, árið 1869. Bæði utan- og innanhússarkitektarnir sem hlut áttu að máli voru mjög gagnrýndir fyrir þessa byggingu og framdi annar þeirra sjálfsmorð en hinn lést úr hjartaslagi og lifði hvorugur það að sjá húsið vígt með óperunni Don Giovanni, 15. maí, árið 1869. Heimstyrjöldin síðari fór illa með þetta hús, óperan var sprengd illa og brann alveg árið 1945. Endurreisnin tók tíu ár. Þarna hafa margir frægir tónlistarmenn verið í forsvari s.s. Gustav Mahler og Richard Strauss. Vínarbúar hafa löngum fylgst vel með því sem gerist í þessu húsi og er haft eftir Herbert von Karajan hljómsveitarstjóra, að hann hafi haft 1,6 milljon meðstjórnendur!
Óperan í Vín er eitt af aðal óperuhúsum veraldar og í febrúarmánuði ár hvert er hið svokallaða Óperuball sem nýtur mikilla vinsælda.
Maria-Theresien-Platz
Áfram höldum við eftir Opernring og tökum kannski smá sveig inn í Burggarten (hallargarðinn) hægra megin en fljótlega út aftur (sömu megin) og förum nú yfir Opernring og heimsækjum Maria-Theresien-Platz, með sínum fallegu grasflötum og vel klipptu skrauttrjám. Sín hvoru megin við torgið standa tvö mikil söfn – Listasögusafnið, sem er eitt af mikilvægustu listasöfnum heims og Náttúrufræðisafnið.
Þinghúsið
Enn göngum við áfram, sömu megin götunnar og nú að Þinghúsi Vínarborgar (við geymum okkur keisarahöllina handan götunnar þar til á eftir). Þinghúsið er hannað af Dana, Theophil Hansen, í grískum stíl. Rétt eins og Ríkisóperan, skemmdist það mikið í heimstyrjöldinni síðari en var endurbyggt. Fyrir framan þessa glæsilegu byggingu trónir viskugyðjan Pallas-Athena.
Ráðhúsið
Næst komum við að Ráðhúsinu, sömu megin götunnar. Mikilfengleg bygging og svo stór og hulin trjám að hún nýtur sín vart nema úr fjarlægð. Mikill og hár 98 m turn prýðir ráðhúsið og efst á honum trónir Ráðhúsmaðurinn – “Rathausmann”. Í ráðhúsgarðinum er m.a. minnismerki um Jóhann Strauss yngri. Í garðinum eru oft kvikmyndasýningar á sumrin.
Háskólinn í Vín - Þjóðleikhúsið
Háskólinn í Vín er næsta bygging á eftir Ráðhúsinu, sömu megin, en nú er kominn tími til að fara þvert yfir Opernring því beint á móti Ráðhúsinu, handan götunnar, stendur Þjóðleikhúsið eða Burgtheater. Það þykir eitt af fínustu þýskumælandi leikhúsum Evrópu.
Volksgarten og Heldenplatz
Hjá leikhúsinu snúum við við – förum nú til baka en í gegnum Volksgarten í áttina að keisarahallarsvæðinu og öllum þeim stórfenglegu byggingum sem þar standa. Úr garðinum er gengið inn á Hetjutorgið (Heldenplatz), mikilfenglegt torg fyrir framan keisarahöllina, þar sem sjá má tvær styttur, stríðshetjuna og erkihertogann Karl og prins Eugene af Savoy.
Keisarahöllin
Af Hetjutorginu blasir við okkur keisarahöllin - Hofburg í allri sinni dýrð. Hin mikla stærð hallarinnar ber vitni um völd og auðæfi liðinna tíma. Hún er einnig minnismerki um 600 ára ríki Habsborgarættarinnar. Upphaflega var þarna miðaldakastali frá því um 1300 en byggingarnar sem líta má í dag eru byggðar á mismunandi tímum. Það furðulega er, að þrátt fyrir margar stíltegundir, myndar byggingin ótrúlega fallega og glæsilega heild.
Í höllinni eru nú skrifstofur forsetans í Leopoldine Wing, þjóðfræðisafn, listasafn (gömul vopn og gömul hljóðfæri), kapellan þar sem Vínardrengjakórinn syngur um helgar og á viðhafnardögum. Einnig Spænski reiðskólinn þar sem hinir frægu Lippinzaner hestar sýna og margt fleira.
Upplagt er að ganga í gegnum hallarsvæðið (til vinstri við Hetjutorgið) og koma út hjá Michaelertrakt. Það er eins víst að þar bíði prúðbúið fólk í búningum frá fyrri öldum að selja miða á hina fjölmörgu tónleika og sýningar sem boðið er upp á í Vínarborg.
Stephansdom
Frá keisarahöllinni er freistandi að þræða þröngar götur og stræti niður að Stefánsdómkirkjunni - Stephansdom í miðbæ Vínarborgar og aðalverslunargötunni Kärtnerstrasse. Kirkjan er nefnd eftir heilögum Stefáni, fyrsta kristna píslarvættinum.
Elsti hluti Stefánsdómkirkjunnar er frá 13. öld. Fallega þakið á kirkunni er úr timbri. Það var eyðilagt í heimstyrjöldinni síðari en endurbyggt eins og svo margt annað. Aðalturn kirkjunnar (137 m), tákn Vínar, er kallaður gælunafninu “Steffl” af Vínarbúum.
Þá er þessum göngutúr lokið en það er fjöldi annarra staða í Vín sem gaman er að skoða, þó þeir liggi ekki alveg í miðbæjarkjarnanum. Ég nefni hér nokkra.
Prater – “Unser Prater”
Prater-garðurinn er almenningsskemmtigarður Vínarbúa. Þessi garður var áður fyrr í hlutverki veiðilendna aðalsins í Vínarborg en Jósef II keisari lét opna garðinn fyrir almenningi 1766. Þarna eru alls kyns skemmtitæki, m.a. hringekja frá 1840 og Ferrishjólið frá 1897. Þetta er staður fyrir unga sem aldna og býður upp á aðstöðu til gönguferða, sundlaugar, hjólaleigu og margt fleira. Ég mæli með að leigja hjól (eða leigja rúlluskauta) og hjóla út allan “Hauptallee” sem liggur í gegnum garðinn.
Grinzing hverfið
Í 19. hverfi Vínarborgar er Grinzing - sem eitt sinn var þorp vínræktenda en tilheyrir nú Vínarborg. Eftir sem áður ríkir þar sérstök og skemmtileg stemming, ekki síst þegar tekur að rökkva. Gömul og notaleg hús, hlaðnar götur og hinir vel þekktu Heuriger veitingastaðir á hverju götuhorni þar sem vínbændur hafa mátt selja gestum og gangandi vín og sitthvað fleira allt frá dögum Maríu Theresiu keisaraynju. Á hennar dögum máttu þeir þó aðeins selja eigin afurðir og einungis í fáar vikur á ári.
Heuriger staðir eru yfirleitt fremur fábrotnir með tréborðum og bekkjum, oft að hluta til undir berum himni og ekki mikið lagt upp úr innréttingum. “Rustic” er e.t.v. rétta orðið. Það þýðir því ekkert að kvarta undan lykkjuföllum á nælonsokkum...! “Heurige” þýðir vín þessa árs – ungt vín. Oftast er boðið upp á tónlist með, Vínartónlist!
Naschmarkt
Naschmarkt – gamall og þekktur markaður, með bæði austurrísku og asísku ívafi sem gaman er að sjá og skoða. Til að komast á Naschmarkt er upplagt að taka U-1 (neðanjarðarlest) frá Stefánsdómkirkjunni á Karlsplatz og síðan U-4 þaðan á Flohmarkt. Þar fást ávextir, grænmeti, mikið af asískum vörum, postulín og ýmsar eldhúsvörur.
Belvedere
Sumarhöllin Belvedere, má eiginlega kalla vel varðveitt leyndarmál í Vínarborg. Það er sannarlega vel þess virði að eyða þar tíma, njóta þess að rölta um fallega garða og jafnvel líta inn á söfnin sem þar eru.
Schönbrunn
Schönbrunn höllina má kalla n.k. Versali Vínarborgar. Á eftir keisarahöllinni var þetta uppáhaldsaðsetur keisaranna. Í Schönbrunn hefur margt sögulegt plaggið verið undirritað og og margar veislur haldnar. Hér sat Napóleon þegar hann hélt Vín í greipum sér 1806 – 1809 og hér fæddist og dó Franz Joseph keisari.
Það er mjög gaman að fara í skoðunarferð innandyra um íbúðir og salarkynni sem bera merki um glæsileika liðinna tíma.
Í Schönbrunn er skemmtilegur dýragarður – einn elsti dýragarður í heimi, síða 1752 en einnig mjög fróðlegt safn gamalla vagna - Wagenburg, sem gaman er að skoða. Látið það ekki fram hjá ykkur fara.
Hundertwasserhaus
Hundertwasserhaus er hannað af Friedensreich Hundertwasser sem gerði að veruleika nýja, umhverfisvæna húsagerð. Hér er engar beinar línur að finna, allt ósamstætt og mikið af litum og plöntum. Það eru almenningsklósett við Hundertwasserhaus sem er ástæða til að hvetja fólk til að heimsækja!
Uno City
Uno City er allt önnur ásýnd Vínarborgar en annað sem hér hefur verið minnst á. Uno City kallast byggingar á eyjunni sem liggur milli gömlu og nýju Dónár í Vín. Þetta eru háhýsi byggð á tímabilinu 1973-79 til að hýsa margar alþjóðaskrifstofur sem áður voru dreifðar út um allar borg.
Hótel og ýmiskonar gisting í Vín
Upplýsingamiðstöð ferðamála í Vín
Uppfært nóv. 2010