Það veldur oft miklum vangaveltum hjá íslenskum ferðalöngum hvort og hvernig eigi að gefa þjórfé. Um það eru stundum skiptar skoðanir en þó gilda nokkur almenn lögmál í þessu sem öðru. Ekki viljum við skera okkur úr á ferðalögum fyrir nánasarhátt!
Hér á eftir fer smá umfjöllun um venjur í þessum málum á Ítalíu, í Þýskalandi, Frakklandi og í Bretlandi.
Ítalía
Í stærri borgum er yfirleitt búið að bæta við þjónustugjaldi sem nemur 10 - 15% á reikninginn á veitingastöðum. Ef ekki, er allt í lagi að gefa 10 - 15% í þjórfé ef þjónustan hefur verið góð. Í smærri borgum og bæjum er þjónustugjald ekki alltaf innifalið og þá er viðeigandi að bæta við einhverjum prósentum í þjórfé.
Hótel bæta einatt við 15 - 20 % þjónustugjaldi við hótelreikninginn. Þó er viðeigandi að gefa herbergisþjónustunni ca. 0.50 evrur á dag og ef dyraverðir flytja farangur upp á herbergi, er í lagi að gefa þeim á bilinu 1.5 - 2.5 evrur fyrir. Leigubílstjórar fá oft um 15% ofan á fargjaldið í þjórfé.
Þýskaland
Það þarf að passa sig á að gefa ekki of mikið þjórfé í Þýskalandi - það getur litið ruddalega út. Flest hótel og veitingastaðir hafa þjónustugjaldið innifalið en ef þjónustan er góð er hægt að reikna um 10% í þjórfé ofan á reikninginn. Leigubílstjórar fá 10% ofan á farið.
Frakkland
Flestir veitingastaðir bæta 15% þjónustugjaldi við reikninginn. Venjan er að skilja eftir til viðbótar 2-3% eða einhverja smápeninga fyrir góða þjónustu. Ef þjónustugjald er EKKI innifalið, þá er rétt að skilja eftir 15% í þjórfé. Dyraverðir og lyftuverðir fá gjarnan 1.5 evrur á tösku. Leigubílstjórar fá venjulega 10 - 15% ofan á fargjaldið.
Bretland
Oftast eru þjónustugjöld ekki innifalin í hótelreikningi og á veitingastöðum. Algengt er að miða þjórfé við 12 - 15% ofan á reikninginn fyrir góða þjónustu. Ekki er ætlast til að menn "tippi" á pöbbum og börum þó að ánægðir gestir bjóði stundum góðum barþjóni upp á glas. Af praktískum ástæðum þiggur barþjónninn boðið í beinhörðum... Fyrir herbergisþjónustu er óhætt að tippa allt að einu pundi á dag og leigubílstjórar fá ca. 10% þjórfé en það fer svolítið eftir vegalengd.