Elsta borg Þýskalands (ásamt Worms), hvergi eins margar rómverskar rústir norðan Alpafjalla, níu staðir og byggingar innan borgarinnar á heimsminjaskrá Unesco, einn af fallegustu jólamörkuðum Þýskalands... og svona mætti lengi telja. Borgin Trier (íbúar um 100.000) við ána Mósel hefur svo sannarlega mikið aðdráttarafl.
Hótel og fjölbreytt gisting í Trier
Veður og hitastig í Trier
Sögubrot
Rómverjar reistu Trier og kölluðu "Augusta Treverorum" árið 16 fyrir Kristsburð og nokkrum öldum síðar, á 3. öld e. Kr. varð borgin höfuðborg hins Vest-Rómverska keisaradæmis og þar sat m.a. Konstantín mikli, keisari.
Það voru Rómverjar sem kenndu heimamönnum vínrækt í Móseldalnum á annarri öld e. Kr. Það er því ekki að undra þó að 2000 ára vínræktarhefð skili sér í góðum vínum á þessum slóðum. Í Trier er að finna fleiri rómverskar rústir en annars staðar norðan Alpafjalla og því ekki að ástæðulausu að Trier komst á heimsminjaskrá Unesco árið 1986. Á skránni eru alls 9 staðir og byggingar í Trier.
Það er líka gaman að geta þess að í Trier fæddist faðir sósíalismans, Karl Marx (1818). Á fæðingarstað hans stendur núna safn, sem veitir miklar upplýsingar um ævi hans og störf.
Um borgina - praktískar upplýsingar
Trier stendur við ána Mósel, í grennd við Eifel hálendið og Hunsrück fjöllin. Það er líflegt andrúmsloft í borginni, ekki síst vegna þess að þar eru um 18.000 háskólastúdentar. Miðborgin stendur á tiltölulega litlu svæði og allir helstu staðir í göngufæri.
Einn af fallegustu jólamörkuðum Þýskalands er að finna í Trier á aðaltorginu borgarinnar, Hauptmarkt og ekki amalegt að koma þar við á aðventunni.
Nærveruna við Frakkland og Luxembourg má merkja m.a. í matarmenningu staðarins.
Eitt aðal kennileiti borgarinnar er Porta Nigra, rómverskt borgarhlið í norð-austur hluta Trier en göngu- og verslunargötur byrja einmitt sunnan við hana. Við Porta Nigra er einnig upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn. Þar er m.a. hægt að kaupa svokallað Trier-Card - afsláttarkort. Kortið veitir ókeypis aðgang í almenningsvagna, afslátt inn á söfn og merka staði, afslátt á skipulögðum gönguferðum og skoðunarferðum fyrir ferðafólk. Einnig afslætti varðandi hjólaleigu á aðaljárnbrautarstöðinni, í leikhúsið, í sundlaugar o.fl.
Markverðir staðir - göngutúr
Það er ágætt að hefja skoðunarferð og göngutúr hjá Porta Nigra, borgarhliðinu sem byggt var á 2. öld e. Kr. úr sandsteini. Þetta er mikilfengleg bygging með tveimur fjögurra hæða háum varðturnum.
Dreikönigenhaus - Hauptmarkt - Dom - Liebfrauenkirche - St. Gangolph
Við höldum áfram niður verslunargötuna Simeonstrasse, fram hjá fallega húsinu Dreikönigenhaus nr. 19 (frá 1230) og inn á Hauptmarkt - aðaltorgið og hjarta borgarinnar. Þetta torg þykir mörgum eitt af fallegustu torgum í Þýskalandi.
Á torginu má sjá fallegan brunn prýddan höggmyndum sem tákna heilagan Pétur og dyggðirnar fjórar.
Við austurhluta torgsins rís dómkirkjan, Dom, sem er blanda af ýmsum stíltegundum en þó að mestu í rómönskum stíl. Rétt hjá dómkirkjunni stendur kirkjan Liebfrauenkirche, ein af fyrstu gotnesku kirkjum Þýskalands. Saman þykja þessar kirkjur einstakt augnayndi.
Kirkjan St. Gangolph (byggð á 13.-15.öld) prýðir suðurhlið torgsins og hinn gotneski turn hennar er stolt Trier og var eitt sinn notaður til að fylgjast með hvort elds yrði vart.
Römische Palastaula - Kjörfurstahöllin - Keisaraböðin
Við göngum núna niður Liebfrauenstrasse og komum að Römische Palastaula, basiliku frá 4. öld, þar sem kórónuherbergi ("throne room") Konstantíns mikla var staðsett. Samtengd basilikunni er kjörfurstahöllin frá 17. öld. Hér byrjar einnig hallargarðurinn, Palastgarten og endar við Keisaraböðin, Keiserthermen, en þar má sjá rústir mikillar baðhallar frá 4. öld. Þar var bæði heitt og kalt vatn og böðin voru með þeim viðamestu í keisaraveldinu öllu.
Rómverska hringleikahúsið
Nokkur hundruð metrum austan við Keisaraböðin og í útjaðri borgarinnar, stendur rómverskt hringleikahús (amphitheater) frá því um 100 e. Kr., sem eitt sinn rúmaði 20.000 áhorfendur. Í leikhúsinu kepptu gladíatorar og þar voru einnig dýr látin eigast við. Leikhúsið gegndi um tíma einnig hlutverki borgarhliðs á 4. og 5. öld.
Bæði keisaraböðin og hringleikahúsið eru notuð fyrir árlegar uppsetningar á Antikenfestspiele, fornum grískum og rómverskum leikverkum og það er ekki erfitt að ímynda sér að flutningur verkanna á þessum slóðum hlýtur að vera áhrifarík upplifun.
Barböruböðin - Römerbrücke - Karl Marx Haus
Við göngum núna frá hringleikahúsinu vestur eftir Kaiserstrasse en rétt áður en komið er niður að ánni Mósel, er upplagt að skoða Barböruböðin, Barbarathermen, almenningsböð byggð af Rómverjum og töluvert eldri en Keisaraböðin, eða frá því um 150 e. Kr. Rústirnar sem standa í dag eru ekki eins tilkomumiklar eins og Keisaraböðin, því staðurinn var notaður sem n.k. "steinnáma" fram á 17. öld (eins og raunar hringleikahúsið) og því ekki jafn mikið eftir sem skyldi. Frá Barbarathermen eru aðeins örfá skref eftir í gömlu brúna sem liggur yfir Mósel, Römerbrücke, sem tók við af brú frá 2. öld e.Kr., en fimm stólpar af sjö úr upprunalegu brúnni standa enn.
Loks ber að geta þess að það er stutt í Karl Marx Haus frá Barbarathermen, gengið er upp Karl Marx Strasse sem verður að Brückenstrasse. Þar stendur húsið hans sem nú hýsir safn.
Hótel og fjölbreytt gisting í Trier
Uppfært nóv. 2010