Það er auðvelt að komast til Brno, næst stærstu borgar Tékklands. Þangað flýgur lágfargjaldaflugfélagið Ryanair daglega frá Stansted og miðarnir oft á hagstæðu verði.
Óhætt er að mæla með hótelinu Royal Ricc sem er í 16. aldar byggingu í barokkstíl og var fyrir nokkrum árum síðan breytt í eitt laglegasta hótel í Brno með antikhúsgögnum og málverkum á herbergjunum og skemmtilegum smíðajárnsskreytingum í lobbíinu. Góður veitingastaður er á hótelinu með alþjóðlegum matseðli.
Brno fær þó ekki nema brot af þeim fjölda heimsókna sem höfuðborgin Prag nýtur, en borgin hefur þó upp á margt að bjóða, s.s. fallegar kirkjur og heillandi, gamlan borgarhluta.
Borgin hefur getið sér gott orð fyrir klassíska tónlist og hægt er að skoða tónleikaframboð á síðunni http://www.filharmonie-brno.cz
Fyrir þá sem vilja fara út á lífið, er góður bjórkjallari við Jakubska 4 með eigin bruggunarverksmiðju og jazzuppákomur eru gjarnan í Varna, Solnicni nr. 3.
Ekki má láta hjá líða að skoða Spilberk kastala, eitt ömurlegasta fangelsi frá tímum Habsborgaraveldisins.