Í hjarta svissnesku alpanna og aðeins í um 2ja stunda fjarlægð frá Zürich, liggur ein elsta borg Sviss, Chur (35.000 íb.) sem jafnframt er höfuðstaður kantónunnar Graubünden. Lítil og sannarlega heillandi borg með fallegum gömlum bæjarhluta þar sem steinlagðar götur ýta undir miðaldalegt yfirbragð og gaman er að rölta um án þess að ætla svo sem eitthvað sérstakt...
Það tekur einungis örskamma stund að komast í návígi við freistandi gönguleiðir í fjöllunum umhverfis borgina. Fljótlegast er að taka kláf (cable car) frá miðbænum sem flytur fólk upp á Dreibündenstein. Þaðan liggja gönguleiðir og skíðaslóðir á veturnar.
Borgin hefur á sér ákveðin "alpablæ" sem sjá má t.d. á söfnum hennar, í listum, náttúru og sögu.
Í miðbænum gnæfir kirkja heilags Martins á litríku torgi og allt í kring liggja göngugötur og stræti með notalegum kaffihúsum og veitingastöðum. Dómkirkjan rís hátt á brattri hæð á bak við St. Martin. - Í miðju verslunarhverfinu stendur fallegt listasafn sem oft býður upp á óvenjulegar sýningar.
Ferðamálaráð Chur
http://www.churtourismus.ch/