Það mætti ætla að það væri að bera í bakkafullan lækinn að bjóða Íslendingum að skoða vötn og fossa á erlendri grund. Óhætt er þó að fullyrða að Plitvice vötnin í samnefndum þjóðgarði í Króatíu, gleðji auga landans svo um munar.
Vötnin liggja um 110 km suður af Zagreb á aðalleiðinni til borgarinnar Split. - Þjóðgarðurinn, sem á króatísku heitir Plitvicka Jezera, komst á heimsminjaskrá UNESCO 1979 og þykir afar sérstakur. Um er að ræða vatnasvæði með rúmlega 16 vötnum og óteljandi fossum sem á sér áreiðanlega fáar hliðstæður hvað varðar litadýrð og fegurð.