Það mætti ætla að það væri að bera í bakkafullan lækinn að bjóða Íslendingum að skoða vötn og fossa á erlendri grund. Óhætt er þó að fullyrða að Plitvice vötnin í samnefndum þjóðgarði í Króatíu, gleðji auga landans svo um munar.
Vötnin liggja um 110 km suður af Zagreb á aðalleiðinni til borgarinnar Split. - Þjóðgarðurinn, sem á króatísku heitir Plitvicka Jezera, komst á heimsminjaskrá UNESCO 1979 og þykir afar sérstakur. Um er að ræða vatnasvæði með rúmlega 16 vötnum og óteljandi fossum sem á sér áreiðanlega fáar hliðstæður hvað varðar litadýrð og fegurð.
Jarðfræði svæðisins er mjög sérstök og geta áhugasamir lesið nánar um hana á vefsíðu þjóðgarðsins. Um svæðið, sem þekur um 30.000 hektara, liggja ótal gönguleiðir og slóðar, en einnig er hægt að komast milli slóða á bát sumsstaðar og það er hreint ekki erfitt að eyða heilum degi á þessum slóðum. Einn möguleiki er að skipta heimsókninni í tvennt og heimsækja efri vötnin sér og neðri vötnin sér.
Ferðamenn tóku að venja komur sínar til vatnanna upp úr 1861. Vegur var lagður til vatnanna 1880 og 1906 kom svo fyrsta hótelið á svæðið og 1949 var það loks gert að þjóðgarði.
Á þessum slóðum eru veturnir afar strangir, oft mikill snjór og hiti getur farið niður í -20°C. Á sumrin verður að jafnaði ekki mjög heitt þarna, en þó eru á því undantekningar. Ástæða er til að vekja athygli á að veður getur breyst mjög skjótt þarna, ekki síður en á Íslandi og full ástæða til að búa sig undir það, t.d. með regnslá og regnhlíf. Þó er hægt að kaupa slíka hluti á svæðinu ef þörf krefur. Ef hitinn er mjög mikill getur loftið orðið kæfandi í "dældum" og þar sem umhverfið er mjög lokað og ástæða fyrir þá sem þola slíkt illa að halda sig frekar ofarlega en ekki niðri í dalverpum.
Í þjóðgarðinum er fjölskrúðugt dýralíf. Þarna eru m.a. otrar, dádýr, villisvín og jafnvel birnir og úlfar þó ákaflega litlar líkur séu á að gestir á svæðinu rekist á slíkar skepnur!
Gisting við Plitvice vötnin og í nágrenni
Vefsíða þjóðgarðsins
http://www.np-plitvicka-jezera.hr/