Hunang og jarðkeppamauk í fallegum krukkum, leirvarningur og lavender, glagíólítiskt letur...og einungis 23 íbúar! Ekki má heldur gleyma hnausþykku samlokunni með heimatilbúna brauðinu, ostinum og skinkunni sem fékkst á eina veitingastaðnum í Hum - en á hana dugði ekkert minna en kjálkar afkomenda norrænna víkinga...
Allt þetta og meira til kemur í hugann þegar rifjuð er upp heimsókn til Hum sem líklega verður að telja einn af minnstu bæjum í heimi.
Bærinn liggur í miðri sveitasælunni á Istriaskaga Króatíu, ævagamall, rómantískur og með heilmikið aðdráttarafl fyrir norræna gesti...
Það þarf nokkuð gott kort til að finna bæinn sem liggur á hæð einni fyrir ofan dalinn sem áin Mirna liðast um. Frá bænum Roc og aðalveginum á þessum slóðum liggur 7 km langur vegaspotti að Hum sem varðaður er 11 minnismerkjum tileinkuðum glagíólítisku letri en það tengist eflingu þjóðarvitundar Króata.
Bærinn hefur varðveist í sinni miðaldalegu mynd og hefur allt sem prýða þarf einn bæ, þótt smár sé, svo sem kirkju, ráðhús og torg!
Nokkrar litlar verslanir eru á staðnum sem selja vörurnar sem nefndar voru hér að ofan, en auk þess veitingastaðurinn sem þekktur er meðal þeirra sem kunna að meta mat að hætti Istriuskagabúa.
Umhverfi bæjarins er svo fagurt að hægt væri að standa og njóta þess daglangt. Hægt er að gera sér ofurlitla mynd af því með því að smella á ljósmyndina hér til vinstri. Skógi- og grasivaxnar ávalar hæðir, lítil sveitabýli inn á milli - ljósleit með rauðum þökum og litlir sveitavegir sem lauma sér í gegnum skóginn hér og þar.