Það er fleira að skoða í Tékklandi en höfuðborgin Prag ein og sér. Víða um Tékkland liggja afskaplega friðsælir og fallegir bæir. Telc, Kutna Hora og Mikulov eru þrír slíkir, þar af eru tveir þeirra á heimsminjaskrá UNESCO.
Telc, sem liggur um 160 km suðaustur af Prag, er á heimsminjaskrá vegna húsanna í gamla bænum sem upphaflega voru úr tré, en eftir mikinn eldsvoða á 14. öld voru þau endurbyggð úr steini.
Kastalinn í Telc, í gotneskum stíl, var einnig endurreistur nokkru seinna. Gamli bærinn liggur á mjórri landspildu sem er nánast umvafin vatni en vatnið var áður fyrr hluti af vörnum bæjarins.
Kutna Hora (um klst. akstur austur af Prag) byggðist upp í kringum miklar silfurnámur. Tvær merkar kirkjur prýða bæinn, Kirkja heilagrar Barböru (í gotneskum stíl) og dómkirkja Vorrar frúar í Sedlec (í barokkstíl). Báðar þessar kirkjur höfðu mikil áhrif á arkitektúr í Mið-Evrópu og eru ein helsta ástæða þess að bærinn er á heimsminjaskrá Unesco.- Hægt er að heimsækja gamla silfurnámu neðanjarðar en það er hvorki fyrir þá sem þjást af innilokunarkennd né þá sem eru veilir fyrir hjarta.
Bærinn Mikulov liggur víggirtur, hátt upp á hæð, nálægt landamærum Austurríkis. Kastalinn í Mikulov blasir við í margra kílómetra fjarlægð.
Áhugavert er að heimsækja þar mikilvægar minjar um gyðinga, s.s. stórt bænahús gyðinga frá 16. öld sem hýsir núna lítið safn um sögu gyðinga í Mikulov. Merkilegast er þó að skoða grafreit gyðinga sem dreifist yfir stórt svæði í hæðunum fyrir ofan bæinn. Þar má líta yfir 2000 legsteina allt frá 17. öld. Ekkert samfélag gyðinga fyrirfinnst þó í Mikulov í dag.
Áhugasamir geta lesið meira um þessa bæi í greininni The quiet pleasures of 3 Czech towns eftir Ruth Ellen Gruber.