Afhverju ekki að ferðast til Feneyja utan mesta ferðamannatímans? Nota haustin og vorin?
Það er full ástæða til að skoða þann möguleika því Feneyjar á sjóðheitum sumardegi eru erfiðar viðfangs! Og gisting í Feneyjum sjálfum er mun ódýrari á haust- og vormánuðum.
Gisting frá Hotel Club, Venere og Hostelworld
Á tímabilinu nóvember - janúar má stundum eiga von á flóðum eða Aqua Alta eins og Feneyjabúar kalla það, en þá er bara að vera við því búinn og upplifa eitthvað öðruvísi!
Þekkt ferðamannasvæði í Feneyjum eins og við Rialtobrúna og Markúsartorgið (Piazza San Marco) eru þéttsetin veitingastöðum sem oft eru dýrir en e.t.v. ekkert sérlega góðir. Finnið út hvar borgarbúar sjálfir borða, lítið inn í fáfarnari götur og prófið veitingastaðina sem finna má einhvers staðar úr leið. Í borgarhlutanum Dorsoduro er mikið um heimilislegar "trattoria" þar sem fá má góðan mat á sanngjörnu verði.
Það getur verið snjallt að leita að hóteli sem næst þeim stöðum sem ætlunin er að skoða, jafnvel þó þau kosti e.t.v. aðeins meira því samgöngurnar kosta líka - bæði tíma og peninga. Herbergi á góðu verði eru oft lítil í Feneyjum og stundum þarf að príla upp stiga....
Gondólarnir í Feneyjum eru rómantískir en afar dýrir. Best er að nota vaporetto til að komast á milli staða, n.k. fljótandi strætisvagnar. Spyrjið um hagstæðustu fargjöldin.
Gleymið ekki að skoða t.d. Murano eyjuna með glerblásturslistamönnum sínum. Hægt er að horfa á listamennina blása gler án þess að greiða fyrir það, en á sömu stöðum fer líka fram sala glermuna. Eyjan Burano er þekkt fyrir blúnduverk og ljósleit hús í pastellitum sem fiskimenn úti á sjó gátu forðum séð langt að og notað til að glöggva sig á staðsetningu sinni. Til Burano er um 40 mínútna ferð með ferju.
Víða er hægt að kaupa aldeilis ljómandi gott snarl, ferskmeti s.s. ávexti og grænmeti, ferskt brauð eða smábrauð (panini), pylsur (salami) og skinku (prosciutto). Njóttu þess að kaupa slíkt stundum og borða í stað þess að setjast inn á veitingahús. Nóg er af rómantískum og sérlega fallegum stöðum þar sem hægt er að tylla sér niður og njóta andrúmsloftsins.
Umfram allt - leggðu frá þér ferðahandbókina stöku sinnum og njóttu þess að láta tilviljun ráða för í þröngum götum Feneyja. Gakktu út úr skarkalanum og fáðu smá nasasjón af því hvernig íbúarnir búa...
Þessi pistill var byggður á greininni Venice without a Second Mortgage af vefsíðunni about.com eftir Mark Kahler.