Margir telja tékkneskan bjór þann besta í heimi. Tékkneskur "bjórkúltúr" er hins vegar sér á báti og gott fyrir aðkomufólk að vita deili á siðum heimamanna.
Ferðalangar í leit að rétta bjórnum ættu að horfa fram hjá bjórkrám sem auglýstar eru sem "Irish Pub" og "casino" en horfa í staðinn eftir "hospoda eða pivnice" sem er tékkneska orðið fyrir krá. Það er líka traustvekjandi ef að krítartafla auglýsir verð á bjór fyrir 30 Kc (tékkneskar krónur) eða minna og eins ef staðurinn er þéttsetinn af Tékkum sjálfum...
Að panta bjór
Þegar þjóninn kemur (getur tekið tíma!) þá gerir hann að sjálfsögðu ráð fyrir því að þú viljir bjór. Notaðu fingurna, þumalputta fyrir 1 bjór, bættu vísifingri við fyrir tvo o.s.frv. Ef þú tekur ekki annað fram, færðu hálfan lítra af bjór hússins. Þegar glasið er tómt, spyrja þjónarnir oftast "Jeste jedno?" sem þýðir "einn í viðbót" en sumir skella einfaldlega nýju hálfs lítra glasi á borðið þar til þú segir "zaplatit, prosim" til að fá reikninginn. (10 % þjórfé er algengt).
Tveir styrkleikar
Sumar bjórkrár bjóða einungis upp á eina tegund bjórs úr krana, aðrar bjóða tvenns konar styrkleika, ljósan "desitku" (ca. 4% alkóhól) eða "dvanactku" (6%).
Ef þú sérð verkamenn drekka bjór að morgni er næsta víst að þeir séu að drekka "desitku" - en þegar skrönglast heim undir miðnætti hafa þeir að öllum líkindum fært sig yfir í "dvanactka"...
"Listek"
Oft halda þjónarnir (sem hafa ekki sérlega fágaða framkomu...) bókhald yfir pantanirnar á seðli sem kallaður er "listek" og liggur á borðinu þínu. Þú mátt ekki undir neinum kringumstæðum hrófla við þessum pappírsbleðli - hvorki krota á hann, rífa af honum né týna áður en þú borgar!
Kurteisin í fyrirrúmi
Loks er vert að geta þess að það er sjálfsögð kurteisi að spyrja fólk við hálf tómt borð hvort þú megir setjast niður hjá þeim "je tu volno? (er þetta laust?) - það er hámark ruddamennskunnar að hrófla við borðum og stólum án þess að spyrja fyrst.
Handhægar bækur með tékkneskum frösum geta hjálpað mikið í samskiptum í Tékklandi. Gott er að kunna að segja Dobry den - góðan daginn, prosim - takk/gjörðu svo vel, dekuji - takk fyrir og zaplatit - að borga.
Þýtt og endursagt úr How to buy a beer in Prague eftir Bill Hangley Jr.