Breska blaðakonan og rithöfundurinn Charlotte Eagar féll fyrir Róm þegar hún var smástelpa og horfði á sjónvarpsþættina Ég Claudius og síðan aftur er hún las hina sögulegu skáldsögu um Lucreziu Borgia eftir Jean Plaidy. Löngu síðar bjó hún í Róm í tvö ár.
Hér á eftir fara glefsur úr viðtali við hana af vefsíðu travel.telegraph þar sem hún svarar nokkrum spurningum um þessa stórkostlegu borg:
Hvað er það fyrsta sem þú munt gera þegar þú kemur aftur til Rómar?
... Fara í göngutúr um Piazza Navona, sem skartar gosbrunninum mikla "Árnar fjórar" eftir Bernini, áfram til Pantheon og enda á torginu Piazza Farnese og fá mér þar kaffi á barnum á horninu. Njóta þess um leið að horfa á framhliðina á Palazzo Farnese eftir Michelangelo.