Hvað á að gera í Napólí ef lítill tími er til umráða? Í greininni 24 hours in: Naples eftir Aoife O’Riordain af vefsíðu New York Times er komið með tillögur fyrir ferðalanginn sem hugsanlega hefur bara sólarhring til umráða í þessari frægu borg.
Ekki er víst að allir séu svo “grand á því” að dveljast á The Excelsior, einu glæsilegasta hóteli Napólíborgar en sé svo, þá er útsýnið þaðan yfir Napólíflóann alveg stórkostlegt þar sem glyttir í eldfjallið Vesúvíus og reykinn úr gígnum.
En hvar sem fólk gistir er upplagt að byrja morguninn á því að rölta niður á torgið Piazza Trieste e Trento sem er rétt við hornið á torginu mikla Piazza Plebiscito og fá sér caffe con panna (kaffi með rjóma) á stéttinni fyrir utan kaffihúsið Gambrinus, sem er gamalt og virðulegt kaffihús í viðhafnarstíl. Þarna er upplagt að horfa á mannlífið á torginu.
Eftir kaffibollann er hægt að rölta niður Via Toledo og fá forsmekkinn af götulífinu í Napólí og hringsóla svolítið um strætin í hverfinu Quartieri Spagnoli. Þetta er Napolí af póstkortunum þar sem hrörlegar byggingar standa með þvottasnúrurnar strengdar á milli. Á morgnana eru strætin iðandi af mannlífi og mörkuðum þar sem selt er allt milli himins og jarðar, allt frá fiski og sítrónum til klæðnaðar og sápu.
Gættu þess bara að verða ekki fyrir einu af hinum mörgu smámótorhjólum sem æða um göturnar (mopeds).
Í hádeginu kemur vart annað til greina en pizza – því hvar ætti pizzan að vera betri en einmitt í borginni þar sem hún var fundin upp? Ein vinsælasta “pizzerían” í Napolí er Da Michele, Via Sersale 1. Þar er einungis hægt að velja á milli tveggja tegunda: Pizza Margherita (tómatur og mozzarella ostur) og pizza marinara (hvítlaukur og tómatur). Önnur afbragðs pizzería er Di Matteo, Via dei Tribunali 94.
Eftir hádegið skaltu ganga eftir hinni þröngu Via Tribunali sem er aðalæð gamla miðbæjarins, centro storico, þar sem ótölulegan fjölda kirkna ber fyrir augu, t.d. Santa Maria Maggiore með barokk ásýnd sinni og miðaldalegu yfirbragði inni fyrir.
Það er líka gaman að stansa við kirkjuna og klaustrið Chiesa di Santa Chiara á Via Benedetto Croce.
Ef þú vilt gægjast inn í fortíðina, er heimsókn í Museo Nazionale Archeologico alveg einstök. Safnið stendur við Piazza Museo. Þessi stóra bygging er eitt stærsta fornleifasafn í heimi og hýsir m.a. fjölda merkra muna frá Pompeii, Stabiae og Herculaneum.
Þegar kvölda tekur er ekki úr vegi að fá sér drykk með öðrum vegfarendum í La Caffettiera, Piazza dei Martiri 25-26 í hverfinu Chiaia og taka síðan þátt í “rituali” Napólíbúa… þ.e. að fá sér kvöldgöngu og skoða í búðarglugga í nálægum götum í Chiaia.
Ítalír borða seint og upp úr kl. 20:30 er tímabært að halda á veitingastað. Einn slíkur er Ristorante Pizzeria L’Europeo við Via Marchese Campodisola 4 en þar er hyggilegt að panta borð fyrirfram.
Eftir matinn er hægt að sameinast borgarbúum í kvöldgöngu eftir Parthenopean við ströndina, þar sem alltaf er líflegt á þessum tíma kvölds. Njóttu stemmingarinnar og kvöldljósanna sem glampa allt í kringum flóann sem og ljósanna frá eyjunum Ischia og Procida í fjarlægð.