Ein af mestu náttúruperlum Englands er vatnasvæðið Lake District í Cumbriahéraði og ef ætlunin er að ferðast um England, væri það ofarlega á blaði.
Sveitir Englands eru afar fallegar en vatnasvæðið er eitthvað sem heillar meira en margt annað og líklega eru það andstæðurnar í landslaginu sem hafa mest áhrif. Há fjöll og löng vötn setja mark sitt á svæðið. Þar er að finna stærsta stöðuvatn Englands, Windermere og einnig hæsta fjallið, Scafell Pike.
Þarna getur ferðalangurinn tekið sér ýmislegt fyrir hendur. Klifið tinda til að njóta útsýnis, farið í bátsferðir á vötnunum eða ekið í gegnum gróðursælar sveitir og gömul þorp.
Það er oft þungur ferðamannastraumur á vatnasvæðinu en með smá útsjónarsemi og með því að forðast þekktustu staðina má njóta kyrrðar og fegurðar í ró og næði. Svo er auðvitað líka hægt að heimsækja svæðið utan mesta ferðamannatímans.
Landeyðing af völdum aragrúa göngugarpa um svæðið hefur verið í umræðunni, en verið er að taka á þeim málum og fólk hvatt til að halda sig við merkta göngustíga til að minnka hættuna á frekari skemmdum.
Lake District hefur verið þjóðgarður síðan 1951 (yfir 200 ferkílómetrar) og er nú í fararbroddi varðandi umhverfisvænan ferðamannaiðnað í Bretlandi. Svæðið fékk raunar fyrstu Green Globe Destination verðlaunin sem veitt voru af Green Globe sem er sjálfstæð stofnun sett á laggirnar eftir Rio Earth fundinn.
Gönguleiðir um svæðið eru misþungar sem og fjallaklifrið líka, en það má finna eitthvað fyrir alla, bæði fjölskyldur með börn og aðra og margir möguleikar til afþreyingar.
Hótel á Lake District svæðinu og aðrir fjölbreyttir gistimögueikar
Gagnlegar vefsíður
www.golakes.co.uk
www.visitcumbria.com