Mynd frá Grüni á Flickr
Leipziger Gose heitir sérkennilegur bjór sem kryddaður er með kóreander og salti og einkennandi fyrir Leipzig, þýsku borg sem fyrrum lá handan járntjaldsins. Enginn annar bjór þykir líkjast honum nema ef vera skyldi Berliner Weisse að sögn bjóráhugamanna. En Leipzig er þekkt fyrir annað og meira en bjór - þar fæddist tónskáldið Richard Wagner og þar bjuggu einnig þeir Robert Schumann og J. S. Bach.
Ef farið er í stutta heimsókn til Leipzig gæti verið góð hugmynd fyrir listunnendur að gista á Galerie Hotel Leipziger Hof. Þar er að finna meira en 200 listmuni, málverk og höggmyndir, bæði frá Leipzig og héraðinu í kring. Verðið sanngjarnt og vinalegur veitingastaður og bjórgarður líka. Það tekur einungis 15 mínútur að rölta í miðbæinn og sporvagnar stansa rétt við hótelið.
Það er afar gaman að taka göngutúr um hinn fallega miðbæ í Leipzig. Takið stefnuna á markaðstorgið og ráðhúsið sem nýbúið er að gera upp - Altes Rathaus. Ráðhúsið var byggt á aðeins níu mánuðum árið 1556 og er ein af fallegustu byggingum frá endurreisnartímabilinu í Þýskalandi. Inni fyrir, í hinum 50 metra langa veislusal, er eina málverkið sem til er af J. S. Bach sem málað var meðan hann lifði.
Þó að járntjaldið sé fallið, þá muna Austur-Þjóðverjar og íbúar Leipzig vel eftir öðrum tímum. Í Stasi safninu við Dittrichring 24, þar sem hægt er að ganga um gamlar höfuðstöðvar fyrrum leynilögreglu A-Þýskalands.
Leipzig gegndi eitt sinn mikilvægu hlutverki í kaffiviðskiptum milli Arabíu og Evrópu. Leifar af þessum tengslum má finna á kaffihúsinu Zum Arabischen Coffe Baum, sem er bæði kaffihús, veitingahús og safn við Kleine Fleischergasse 4.
Yfirbyggð sund með verslunum eru einkennandi fyrir Leipzig. Það er upplagt að ganga í gegnum Mädler-Passage með ýmsum verslunum, m.a. súkkulaðibúðinni Arko við nr. 11 og þar á móti stendur tebúðin Bremen.
Áður en kvöldið skellur á er upplagt að kíkja inn á einn af börunum í Barfussgasschen, þar sem er mikið mannlíf og finna má allar þjóðfélagstéttir. Bar Fusz við nr. 3-11 er ágætur og einnig Zill's Tunnel á horninu á Barfussgasschen og Klostergasse.
Leipzig er mikil menningarborg og fyrir tónlistarfólk getur verið úr vöndu að ráða - hvað skuli velja. Þó er vart hægt að láta fram hjá sér fara tónleika með Gewandhaus Orchestra við Augustusplatz, sem er ein af virtustu hljómsveitum veraldar.
Hægt er að benda á tvo sérstaka veitingastaði sem gaman er að sækja heim: Annars vegar Varadero sem er kúbanskur staður við Barfussgasschen nr. 8 og á rætur sínar að rekja til þess tímabils þegar tengslin milli Havana og Leipzig voru sem mest. Hins vegar má benda á einn frægasta veitingastað Leipzig sem er Auerbachs Keller við Mädler-Passage. Þessi veitingastaður hefur tekið á móti gestum síðan árið 1530 og kemur m.a. við sögu í hinu þekkta verki Faust eftir Goethe.
Gisting
Hótel í Leipzig og fjölbreyttir gistimögueikar
[Heimild: 24 Hours In Leipzig - Coffee, cakes and kellers eftir Mark Rowe af vefsíðu The Independent]
[Mynd: Barfussgässchen frá http://www.leipzig-sachsen.de/leipzig-fotos/altes-rathaus.html]