Það tekur einungis hálftíma að ferðast með nýlegri hraðlest frá Madrid til borgarinnar Toledo sem liggur eina 70 km suður af Madrid.
Borgin stendur á kletti í 529 m hæð yfir sjávarmáli og er nánast umkringd fljótinu Tajo. Sagt er að fáar spænskar borgir gefi jafn glöggan vitnisburð um fjölbreytileika spænskrar menningar og byggingarlistar eins og Toledo og í gamla miðbæ borgarinnar er að finna yfir eitt hundrað söguleg minnismerki frá ýmsum tímum. Það er ekki að undra þegar haft er í huga að íbúar borgarinnar hafa í gegnum tíðina aðhyllst þrenns konar mismunandi trúarbrögð og í kringum þau hefur skapast fjölbreytileg menning og mannlíf.
Toledo komst á heimsminjaskrá UNESCO árið 1987.
Hótel
Af góðum hótelum í Toledo má t.d. nefna Hotel Cigarral El Bosque, sem er 5 stjörnu hótel með glæsilegu útsýni yfir borgina, stórum svölum og góðum veitingastað. Gott verð. - Í hjarta gamla miðbæjarins í fyrrum gyðingahverfi stendur Hotel San Juan de los Reyes sem er nýlega endurnýjað hótel, mjög vel staðsett og notalegt.
Veitingastaðir
Los Cuatro Tiempos, Calle Sixto Ramón Parro nr. 5 er góður kostur og býður upp á frumlega matargerð í gamalli og mjög fallegri byggingu nálægt dómkirkjunni. Frábær skinka og ostar en fiskréttirnir eru þó aðall staðarins.
La Abadia, Plaza San Nicolás nr. 3 er einn af vinsælustu börum í Toledo og þar er hægt að fá góðan mat líka.
Til að skoða
Í Toledo liggur töluverður arfur eftir grískættaða málarann El Greco, sem settist að í Toledo á 16. öld og sá arfur er jafnframt eitt af því helsta sem dregur að ferðamenn. Verk hans eru dreifð um alla borg, t.d. í El Greco Museum í Calle Samuel Levi og einnig í kirkjunni Santo Tomé.
Gönguferð
Það er upplagt að leggja upp frá Plaza Zocodover, fara fram hjá Alcázar (lokað um stundarsakir vegna viðgerða en upplagt að taka lyftuna upp í suðvestur turninn til að njóta stórkostlegs útsýnis yfir Toledo) til San Miguel mirador. Þegar aftur er komið inn í borgina er gaman að ganga yfir Plaza San Justo og að dómkirkjunni. Þaðan er hægt að halda í austurátt til Paseo del Tránsito með fallegu synagógunni (endurgerð), Santo Tomé kirkjunni, El Greco safninu og annarri synagógu sem heitir Santa Maria La Blanca.
Síðan er hægt að ganga eftir Calle de los Reyes Católicos og stansa við San Juan de los Reyes klaustrið. Loks er hægt að ganga í gegnum gamla gyðingahverfið til baka til Zocodover.
Skoðunarferðin
Hægt er að fara í bátsferð yfir ána, annað hvort hjá Alcántara brúnni eða með því að taka bátinn sem fer yfir fljótið Tajo rétt hjá Casa del Diamantista (á sumrin). Síðan er hægt að ganga eftir veginum fyrir ofan ána og skreppa upp í hæðina að svölum Parador hótelsins. Farið svo yfir San Martín brúna til baka í gamla borgarhlutann.
Fyrir nátthrafna
Mælt er með því að byrja á einum af börunum á Plaza Zocodover. Rölta síðan í austurátt og skoða mannlífið á fjörugu börunum í Calle Santa Fe og Plaza Santiago de los Caballeros.
Um helgar er lifandi tónlist á La Destilería við Calle Sillería nr. 3 og í El Gallo í Callejon de la Sillería er skemmtilegt andrúmsloft. Pícaro í Calle Cardenas er opinn fyrir nátthrafna og diskótekið Sithous í Calle Lucio er býsna fjörugt.
Um að vera
Meðal annars má nefna karnival sem stendur yfir seinni hluta febrúarmánaðar og fram í mars. Í apríl er "heilaga vikan" og í júní er stærsta hátíð borgarinnar, Corpus Christi (18. júní 2006).
Gagnlegar vefsíður
[Mynd: http://www.personal.psu.edu/staff/j/x/jxf17/spain2002/toledo.html]