Héraðið Abruzzo á Ítalíu getur verið ákjósanlegur kostur fyrir fjölskyldudvöl t.d. í septembermánuði þegar hitinn er farin að lækka og ferðamönnum fækkar. Það er ódýrt að fljúga t.d. til Pescara með Ryanair frá London Stansted og börn eru afar velkomnir gestir í Abruzzo eins og raunar annars staðar á Ítalíu. Abruzzo er þar að auki nokkuð laust við gerviveröldina sem oft þjakar vinsæla staði sem reyna að gera ferðamönnum til geðs.
Ekki sakar heldur að nefna að í héraðinu eru yfir 300 staðir sem bjóða bændagistingu og oftar en ekki ferskt hráefni beint af ökrunum en í héraðinu geta bændur vart lifað af án þess að hafa eitthvað meira en búskapinn einan til að bjóða uppá.
Ferðalangur las góða umsögn um bændagistingu á stað sem heitir Le Macine í Silvi sem bæði býður upp á íbúðir, sundlaug og B&B ásamt veitingastað. Stutt er á ströndina Silvi Marina en einnig er hægt að skreppa til Pineto sem er ögn lengra í burtu.
Abruzzi er þekkt fyrir fjóra þjóðgarða sem liggja í afar fallegu umhverfi fjalla. Abruzzo þjóðgarðurinn er einn elsti þjóðgarður á Ítalíu og meðal villtra dýra þar er mestur fjöldi brúnna bjarndýra sem fyrirfinnast á Ítalíu. Miðpunktur þjóðgarðsins, bærinn Pescasseroli liggur í um 2ja stunda fjarlægð frá Silvi.
Upplagt er að bregða sér í skoðunarferð til aðalborgar héraðsins Aquila- athugið bara að milli kl. tvö og fjögur er ekkert að gerast þar frekar en í öðrum bæjum á Ítalíu! Bærinn Atrier einnig notalegur að sækja heim þar sem börnin geta leikið sér á aðaltorginu. Þar er einnig mjög góður veitingastaður, Locanda Duca d'Atri sem m.a. býður upp á ótrúlega fjölbreyttan vínlista með vínum frá öllum héruðum Ítalíu ásamt öllum vínframleiðendum í Abruzzo.