Snemma á 19. öld hófu ferðamenn að flýja óreiðuna í Napolí til Sorrento og þeir hafa eiginlega aldrei farið síðan. Íbúarnir telja að töfrar lagsins Come Back to Sorrento hafi eitthvað með málið að gera en trúlega er það ekki síður þægilegt andrúmsloft bæjarins sem er ágætis tilbreyting frá klettum og eldfjöllum í nágrenninu.
Sorrento stendur á sjávarhömrum á ákaflega fallegum stað sem tilheyrir Campaniahéraðinu. Bærinn á sér fornar rómverskar rætur sem sést best á skipulagi hans. Sem betur fer stóð bærinn nógu langt frá eldfjallinu Vesúvíusi til að komast hjá þeim ósköpum sem grófu Pompeii og Herculaneum undir ösku.
Þegar ferðalangar hafa fengið nóg af sólinni er upplagt að taka almenningsvagn til Massa Lubrense eða Termini og fylgja síðan einni af nokkrum gönguleiðum í kringum Sorrento skagann. Eitt sinn var hægt að ganga alveg til Capri en þeir dagar eru löngu liðnir enda Caprí eyja núna eins og flestir vita. En engu að síður er Sorrento skaginn að mörgu leyti jafnfallegur og Caprí - en án ferðamannastraumsins sem þangað leitar.
Ekki missa af:
Ísveislu hjá Gelateria Davide þar sem hægt er að velja úr yfir 50 bragðtegundum af ótrúlega góðum ís.
Hvar á að borða?
Kvöldröltið í Sorrento (alveg sér ítalskt fyrirbæri!) liggur óhjákvæmilega um Piazza Tasso þar sem Bar Il Fauno er einn aðalstaðurinn og hefur verið síðan um 1950. Við sama torg stendur Ristorante Caruso, en þar má finna marga nýstárlega og góða rétti og langan vínlista.
Fiskimennirnir í Sorrento búa við Marina Grande þar sem finna má margar trattoriur sem bjóða sjávarfang dagsins. Einna elst er Da Emilia sem býður einfalda og góða fiskrétti og fallegt útsýni.
Eini veitingastaður Suður-Ítalíu sem hlotið hefur þrjár Michelin stjörnur heitir Don Alfonso og liggur í 6 mílna fjarlægð frá Sorrento í Sant'Agata sui Due Golfi. Sama fjölskylda hefur rekið staðinn frá því 1890 og lögð er sérstök áhersla á uppskriftir frá endurreisnar- og barrokk tímabilinu. Fjölskyldan keypti m.a.s. bændabýli til að hafa sem bestan aðgang að fersku hráefni. Það er ekki ódýrt að borða þarna en upplifunin ku vera ógleymanleg!