Bærinn Ravello við Amalfiströndina stendur ekki við ströndina sjálfa en bætir það upp með görðum og útsýni sem fær fólk til að grípa andann á lofti.
Margir hafa sótt þangað innblástur, m.a. höfundur bókarinnar Lady Chatterley's Lover, D.H. Lawrence. Tónskáldið Wagner varð svo hrifinn af Villa Rufolo í Ravello og garðinum í kring að hann notaði umhverfið þaðan í óperu sína Parcifal. Og kvikmyndin "A Good Woman" notar sömu villu sem fyrirmynd að golfklúbbi í myndinni. Síðast en ekki síst - engir bílar eru í Ravello!
Annar garður í Ravello, garðurinn í kringum Villa Cimbrone, er almennt talinn einn rómantískasti garður á Ítalíu. Þangað komu rómverskir höfðingjar til að leita skjóls fyrir "barbörum" á 5. öld eftir Krist. Árið 1904 keypti Baron Grimthorpe villuna og einsetti sér að gera garðana að fallegasta stað jarðar. Og fyrir nokkrar evrur er hægt að ganga þar um og meta hvort honum tókst ætlunarverkið.
Ekki missa af...
Útitónleikum í Villa Rufolo á vorin og haustin. Hægt er að skoða dagskrána á www.ravello.info.
Hvar á að borða...
- Hjá Rossellini í Palazzo Sasso, þar er lagt á borð á glæsilegum svölum í 1000 feta hæð yfir sjónum og staðurinn hefur unnið til 2ja Michelin stjarna.
- Í Villa Maria er hægt að borða fettucini með porcini sveppum undir trjánum nú eða alls kyns gómsæta sjávarrétti.
- Ef einhverjir vilja hvíla sig á sjávarréttunum er hægt að fá girnilega kjötrétti og vín í Cumpa Cosimo sem er til húsa í 300 ára gömlum vínkjallara.
- Da Vittoria í nágrenni dómkirkjunnar býður sjóðheita pizzu með þunnum botnum í fallegu umhverfi.
Hótel
Hótel í Ravello og ýmsir gistimöguleikar