Montmartre, Paris
Montmartre hæðin í París hefur vinninginn fram yfir aðra útsýnisstaði í París hjá mörgum. Sérstaklega útsýnið frá kirkjunni stórkostlegu, Le Sacré Coeur. Sigurboginn gefur að vísu betri sýn yfir miðborgina og Eiffelturninnn er hærri - en Montmartre gefur skemmtilegri heildarsvip.
Best er að rölta upp hæðina frá neðanjarðarlestarstöðinni Abbesses (lína 12) að torginu Place du Tertre. Þar er yfirleitt mikið um manninn og portrett málarar setja mikinn lit á umhverfið þótt þeir eigi ekki mikið sameiginlegt með fyrri íbúum þessa borgarhluta s.s. Picasso, Braque, Van Gogh og Degas.
Á vesturenda torgsins er hin mikla kirkja Sacré Coeur og á tröppum hennar opnast stórfenglegt útsýni yfir Parísarborg. Ef ekki er hægt að gefa sér tíma til að ganga upp hæðina er hægt að taka neðanjarðarlestina til Anvers (lína 2) og taka kláf upp hæðina (funicular).
Lac de Gaube í Pýrenneafjöllunum Rétt fyrir utan heilsubæinn Cauterets er mjög vinsæll staður, Pont d'Espagne. Þar þarf að finna bílastæði og ganga síðan í ca. 2 tíma (eða fá far með Télésiege) eftir blómlegum dal til vatnsins Lac de Gaube sem hefur afar sérkennilegan blágrænan lit. Við enda dalsins, aftan við vatnið, stendur Vignemale, mikill fjallarhringur þar sem m.a. er fjallið Mont Vignemale, það hæsta Frakklandsmegin Pýrenneafjallanna.
Upplagt er að tylla sér niður á veitingastað við vatnið og njóta útsýnisins. Hægt er að bæta við 3 tímum og hálftíma klifri og heimsækja L'Horquette d'Ossoue, 2.700 m hátt fjall. Útsýnið þaðan niður að Lac de Gaube og yfir fjallstoppana Spánarmegin er afar fallegt en kallar trúlega á að panta gistingu í nálægum skála. Frá skálanum er auðvelt að klífa toppinn á Petit Vignemale sem nær því að teljast til hinna 3000 m háu toppa Pýrenneafjallanna.
[Myndin af Le Sacré Coeur er fengin af vefsíðu http://www.ibiblio.org/ en myndin af Lac de Gaube af vefsíðunni jmtroude.free.fr/ Book/73gaube.html]