Eyjan Madeira er stærsta eyjan í eyjaklasa sem kenndur er við Madeira og tilheyrir Portúgal. Hún er ekki nema 55 km löng og breiðust 22 km. Miðhluti eyjarinnar rís hátt, þar sem hæsti tindur er Ruivo de Santana, 1861 m.
Inn til landsins er eyjan að mestu óbyggð og ræktað land er ekki að sjá þegar komið er yfir 900 m hæð.
Madeira er kjörin til gönguferða af ýmsum þyngdargráðum og eftir hressandi gönguferð er hægt að láta fara vel um sig á heilsuhóteli ef fólk er í þeim gírnum.
Hér eru þrjár tillögur að gönguferðum:
- Fjallaslóði frá Pico do Areiro til Pico Ruivo, hæsta tinds eyjarinnar. Þetta er a.m.k. 3ja tíma ganga og nokkuð erfið.
- Tekinn er kláfur til Monte, og síðan er fylgt Levada dos Tornos í gegnum þorp og skóga og komið við í Botanical Gardens. Þægileg 2ja stunda ganga, að mestu niður í móti.
- Levada do Caldeirao Verde er þriggja tíma ganga fram og til baka. Gengið er niður í dal þar sem er að finna hjarta Madeira, eitt elsta skógarsvæði jarðar sem nú hefur fengið heimsminjastatus UNESCO.
Alls eru gönguslóðar Madeira um 2000 km langir, svo ekki ætti að vera erfitt að hafa upp á slóða við hæfi.