Ferðalangur fékk skemmtilega ábendingu um litla heimagistingu skammt frá bænum Sens sur Seille í suð-austurhluta Bourgogne-héraðs sem bresk hjón reka, þau Carolyn og John Scallan sem hér sjást á myndinni í garði sínum.
Á heimasíðu þeirra, http://www.bandb-burgundy.com/, eru upplýsingar m.a. á íslensku. Boðið er upp á "gistingu í fjórum rúmgóðum tveggja manna herbergjum. Morgunverður fylgir gistingunni. Herbergin eru öll með góðri baðaðstöðu, sturtu og klósetti. Allt er mjög heimilslegt. Gestir hafa aðgang að stofum húsins og notalegum garði. Ef menn vilja bjóða Scallan hjónin upp á ríkulegan fjórréttaðan kvöldverð. Þá njóta menn rétta héraðsins, osta og vína. " (Orðrétt af heimasíðu).
Bærinn liggur svolítið afskekkt og ef fólk er ekki vant að aka um sveitavegi Frakklands, getur verið erfitt að rata til þeirra. Að öðru leyti liggur þetta vel við þegar fólk er t.d. á leið til Sviss eða Austurríkis.
Golfklúbbar
Gistiheimilið er skammt frá bænum Sens sur Seille. Tæplega klukkutíma akstur er að nokkrum golfvöllum.
Í Chapelle Volland, sem er í 15 km fjarlægð, er níu holu golfvöllur. Hægt er að taka á leigu útbúnað á staðnum. Vallargjöld eru 12 evrur á virkum dögum og 15 evrur um helgar og á hátíðisdögum. Völlurinn er opinn allt árið.
Fyrir þá, sem kjósa meira krefjandi völl, er par 72 keppnisvöllur við Domaine du Val de Sorne Golf Hotel rétt fyrir utan Lons le Saunier (um það bil 30 mínútna akstur). Vallargjöld eru á bilinu 29 til 47 evrur, en verðið er háð árstíma og hvenær í vikunni er spilað.
Rétt fyrir utan Chalon Sur Saone er golfvöllurinn Rarc de Loisirs Saint-Nicolas. Hann er mjög góður 18 holu par 71 völlur.
Veiði
Margir möguleikar eru á veiði í nágrenninu. Í ánum Seille, Doubs og Saone er hægt að veiða geddu, vartara, aborra, vatnakarfa og hinn þekkta fen-grana (silurid), sem er með skeggþræði á trýninu. Hann heldur sig aðallega við árbotninn, en sést illa í leirnum sem þar er. Líka er hægt að fá leyfi til að veiða í einkatjörnum, bæði að nóttu sem degi.
Sund
Í Saint Germain du Bois, sem er í tíu mínútna fjarlægð frá Sens sur Seille, er sundlaug sem er opin á sumrin eftir kl. 14.00.
Hestaferðir
Í Bosjean (innan við 5 km) er Centre Hippique de La Chenaraie, stór reiðmiðstöð, sem rekin er af Vincent fjölskyldunni. Þar eru haldnar keppnir og ýmsir viðburðir allt árið. Hægt er að skrá sig á námskeið og Carolyn og John geta líka útvegað reiðtúr einhvern morguninn eða kvöldið.
Hjólreiðar
Landslagið í Bresse er aflíðandi og heppilegt fyrir þægilegar hjólreiðaferðir. Fyrir þá sem kjósa meira krefjandi ferðir eru Jura fjöllin í næsta nágrenni, en þar finna fjallahjólreiðamenn aðstæður við sitt hæfi.
Í vesturátt er Voie Verte eða “gæna leiðin”. Voie Verte er net auðveldra stíga fyrir hjólreiðar, gönguferðir, hestaferðir og jafnvel línuskauta, en það liggur um stórt svæði meðfram ánum Saonne og Loire og gegnum vínakrasvæðin. Engin bílaumferð er um stígana, en mörg bílastæði liggja að þeim þar sem hægt er að fá nánari upplýsingar, fara á salerni og skilja bílana eftir.
Fyrir þá, sem ekki hafa hjól meðferðis, eru fjögur fjallahjól til afnota fyrir fullorðna og börn 11 ára og eldri á staðnum. Hjólaleiga er við upplýsingamiðstöðina í Louhans og verðið er frá níu evrum fyrir hálfan dag.
Hægt er að fá lánaða hjólagrind fyrir bílinn!
Afþreying og áhugaverðir í næsta nágrenni (innan við 20 mín. akstur).
Sens sur Seille
Þorpið er svokallað “working village” þ.e. atvinnusvæði þar sem eru mörg fyrirtæki. Það er vel þess virði að skoða það og einnig að líta inn í kirkjuna í miðju þorpinu. Einnig er hægt að fara þaðan í gönguferð yfir til Frangy en Bresse og á leiðinni má sjá áhugaverðar jurtir og fjölbreytt dýralíf, m.a. rauða íkorna, spætur, rádýr og þið getið jafnvel komið auga á nokkra fen-grana í ánni.
Þar er fjörugur markaður á laugardagsmorgnum sem er vel þess virði að heimsækja. Þar er einnig stórt vatn og sundlaug sem er opin á sumrin. La Maison Collinet er safn um landbúnað í Bressehéraðinu frá því snemma á 19. öld. Ekki langt frá er Mervans þar sem er snúin turnspíra með hinum frægu tígulsteinum sem eru einkenni þaka í Búrgundarhéraði.
Louhans
Louhans er þekkt fyrir verslunarbyggingar sínar frá miðöldum. Þar er líka fallegur spítali og apótek. Ekki má láta markaðinn í Louhans fram hjá sér fara, en hann nær yfir stærstan hluta bæjarins!. Í Louhans er líka prentsafn sem tilheyrir Ecomusee de Bresse Bourguignon og sýnir sögu dagblaðagerðar.
Pierre de Bresse
Höllin í Pierre de Bresse er meðal hinna fegurstu í nágrenninu. Hún hýsir Ecomusee de Bresse Bourguignon sem sýnir lífið í Bresse gegnum aldirnar. Í höllinni eru haldnar hátíðir og ýmsir viðburðir árið um kring.
Arlay
Rétt hinum megin við landamærin að Jura héraðinu er hið fallega miðaldaþorp Arlay. Þar er hægt að fara í lautarferðir við ána, ganga gegnum þorpið eða heimsækja höllina, sem er að mestu rústir, en áhrifamikil sjón. Arlay er eitt af þorpunum þar sem jura-vínin eru framleidd.
L ´Etoi
Þetta þorp er í útjaðri Jura vínhéraðsins. Því ekki að smakka eitthvert af þessum hvítu vínum eða freyðivínum sem þar eru framleidd? Ein tegundin kallast “Gula vínið” og er ekki víða á boðstólum annars staðar í heiminum.
Chalon sur Saone
Bærinn er upprunalega miðaldabær og stendur á bökkum árinnar Saone. Markaður er í gamla bæjarhlutanum á sunnudögum. Í bænum eru nokkur söfn, m.a. Le Musee Nicephore Niepce um einn af fumkvöðlum ljósmyndunar. Sjúkrahúsið L´Hopital Saint-Laurent er á eyjunni Ile Saint-Laurent. Það var stofnað af nunnum árið 1528 og er nálægt veitingahúsahverfinu þar sem finna má úrval kaffihúsa og veitinghúsa.
Cuisery
Einn af höfuðstöðum bóka í Frakklandi þar sem haldnar eru hátíðir og markaðir (venjulega fyrsta sunnudag í mánuði). Í Cuisery er einnig Centre Eden sem er margmiðlunarmiðstöð þar sem hægt er að kynnast vistfræði héraðsins. Beaune
Fallegur miðaldabær og hjarta víngerðar í Burgundy. Hér er aðsetur margra þekktustu vínframleiðenda héraðsins. Ekki má láta hjá líða að heimsækja stofnunina Hotel-Dieu sem á sér merka sögu sem fátækrahæli í einni af glæsilegustu byggingu héraðsins með hinum áberandi og lítríku tígulsteinsþökum. Hægt er að fara í "vín safari" þar sem heimsóttar eru vínekrur og vínin smökkuð hjá framleiðendunum sjálfum.
Lons le Saunier
Fallegur heilsulindabær í Jurahéraðinu sem býður upp á áhugaverða staði, m.a. Juraparc þar sem reglulega eru haldnar sýningar. Í nágrenni Lons eru fossarnir Cascades du Herisson. Lons er líka upphafsstaður Jura vínleiðarinnar, þröngra vega sem liggja um hin fögru víngerðarþorp Jurasvæðisins.
Baume Les Messieur
Þetta fallega þorp, sem liggur nálægt Lons le Saunier, kemur ókunnugum á óvart. Kirkjan sem er að hluta til byggð á 12. öld setur svip á bæinn. Í efri enda dalsins eru hellar þar sem hægt er að fara í ferðir í fylgd leiðsögumanna um stórkostlegar klettamyndanir.
Ferðalangur kann Birnu G. Bjarnleifsdóttur bestu þakkir fyrir ábendingu, myndir og texta. Það er John sem stendur við vínámuna og Carolyn sem verslar á markaðinum.