Ferðalangur hefur áður fjallað um Prag, en hér koma ómetanlegar viðbótarupplýsingar frá Íslendingi sem býr í Tékklandi, Björgvini Brynjólfssyni, sem var svo vinsamlegur að deila þeim með lesendum Ferðalangs.
Bjórhimnaríki
Pivovarsky Dum er í göngufjarlægð frá Vaclavske Namesti. Þetta er bjórhimnaríki og frægasta brugghús/bar í Prag. Þarna er m.a. hægt að fá kaffibjór, bananabjór og kirsuberjabjór (!).
Heimilisfang:
Lípová 15 Prag 2
Sömu aðilar eru nýlega búnir að opna útibú í Karlín-hverfi, þar sem svipað þema er uppi á teningnum.
Þumalreglan er sú, að því fjær sem menn fara frá Vaclavske Namesti og gamla torginu, því ódýrari er bjórinn. Zizkov hverfið er undantekning, því það er staðsett á "bak við" Muzeum. Þar eru heitustu klúbbarnir í Prag nú til dags. Mjög margir flottir klúbbar eru þar í afar gömlum byggingum, oft gömlum vínkjöllurum.
Á bak við 10° og 12° flokkunina á bjór er meira en áfengismagnið. 10° bjór er bruggaður á skemmri tíma er haft eftir heimamönnum en sá 12° þykir fyllri. Það er svo smekksatriði hvað hverjum og einum finnst. Í vor (2006) var buggaður 23° bjór og er sá sterkasti á markaðnum. Ekki fylgir sögunni hvar hann fæst enda e.t.v. eins gott...
Letna - falinn gimsteinn
Útivistarsvæðið Letna er falinn gimsteinn. Þar koma heimamenn saman í góðu veðri og njóta þessa gríðarstóra grassvæðis, oft með því að fara í sirkus (mjög algengt að sjá þar sirkustjöld), fljúga flugdrekum (vinsælt hobbý Tékka) eða njóta útsýnisins yfir Vltavaána. Þarna stendur til að reisa gríðarstórt sædýrasafn í framtíðinni.
Að týnast í Prag...
Jozefov er besta hverfið í Prag til að "týnast í". Þar má eyða ótal mörgum klukkustundum utan asa miðborgarinnar og njóta góðra kaffihúsa og arkítektúrs.
Karlin-hverfi
Karlín (norðan við Zizkov) er eitt af þeim hverfum sem fá ekki mikla athygli. Svæðið er gömul landfylling ofan á mýri, og er sem slíkt afar viðkvæmt fyrir flóðum. Í stóru flóðunum 2002 fór þetta hverfi einna verst, en hlaut frekar litla athygli miðað við mörg önnur. Þarna var í gegnum tíðina þekkt verkamannahverfi, en í dag er Karlín orðið vinsælt sem ódýrari valkostur en Zizkov, sem er aðal listamannahverfið. Þar eru mjög falleg, gömul hús og "lókal matsölustaðir".
Mala Strana
Mala Strana hverfið er við rætur kastalans. Það líður svolítið fyrir að vera þar, því margir ferðamenn strunsa beint að kastalanum þegar þeir eru komnir yfir Karlsbrúna. Ef menn beygja til vinstri, þá koma þeir inn í hjarta þessa hverfis. Mala Strana hefur margsinnis verið brennt niður í hinum ýmsu stríðum. Flóðin 2002 fóru einnig heldur illa með þetta hverfi, en þar er að finna (eins og svo víða) fína veitingastaði, eilítið í dýrari kantinum. Frábært útsýni er ofan af hæðinni, þar sem auðugasta klaustur Tékklands var til húsa. Klaustrið er enn til staðar, en það er ekki svo auðugt lengur. Frábærir göngustígar og útivistarsvæði í kringum eftirlíkingu af Eiffel-turninum.
Fréttasíða frá Tékklandi
Besta fréttasíðan frá Tékklandi á ensku er: http://www.radio.cz/en/
Nafnadagar
Í Tékklandi er ekki haldið eins mikið upp á afmælisdaga eins og tíðkast hjá Íslendingum. Þess í stað eru "nafnadagar" (svatky) haldnir hátíðlegir, þar sem hvert nafn hefur sinn dag og gefin eru blóm og annað í þeim dúr af því tilefni. Á vefsíðunni http://www.johnboy.cz/web/svatky/ má finna hvaða nafn tilheyrir hvaða degi.
Tveir ómissandi réttir
Varðandi mat verður að minnast á tvo rétti sérstaklega. Á Vaclavske Namesti er að finna ótal sölubása sem selja Smazený Sýr - djúpsteiktan ost í hamborgarabrauði með tatarasósu. Þetta er hreint lostæti og engum ætti að vera hleypt út úr landinu án þess að smakka! Verðið á þessum skyndibita fer hækkandi eftir því sem gengið er nær Vltava (Moldá) svo besta verðið er að finna við Muzeum.
Ef það er einhver réttur sem einkennir tékkneska matseld öðrum fremur, þá er það svínakjöt með knedlicky (einhverskonar brauðrúllum) og súrkáli. Þessi réttur er þannig hannaður að nær ómögulegt er að koma honum niður án þess að hafa bjór með...
Björgvin mælir sérstaklega með veitingastaðnum Druha Svet við Muzeum. Verðið þar er mun lægra en gengur og gerist í borginni og maturinn framúrskarandi. Best er að ganga þangað frá Muzeum, upp Woodrow Wilson götu u.þ.b. 150 metra. Lætur lítið yfir sér utan frá séð, en stór og rúmgóður.
Mánaðanöfnin
Nöfn mánaðanna hjá Tékkum eru allt öðruvísi en í nágrannalöndunum. Meira að segja Slóvakía fylgir vestræna forminu. Mánuðirnir draga nafn sitt mjög af náttúrunni og því sem er að gerast á hverju tímabili -útskýringarnar á sumum þeirra eru ansi langsóttar þegar maður sér þær fyrst en svona líta þær út:
leden - "ís"
únor - ?
březen - "fæðing"
duben - "eik"
květen - "blóm"
červen - "rautt"
červenec - "rauðara"
srpen - "sigð"
září - "gylling"
říjen - "tilhleypingar"
listopad - "lauf falla"
prosinec - "takk fyrir"
[Bestu þakkir til Björgvins fyrir afar skemmtilegan og fróðlegan pistil].