Ferðalangar sem heimsótt hafa Feneyjar oftar en einu sinni og ef til vill á ólíkum árstíma, hafa án efa veitt því eftirtekt að borgin er ekki alltaf eins. Stundum er hún sveipuð dularmóðu og sjarma en svo getur hún líka boðið upp á suddaveður eða óbærilegan hita, ótrúlegan fjölda annarra ferðamanna og svimandi hátt verð eða fyllt vit manna af heldur óskemmtilegum fnyk…
Þetta eru einfaldlega Feneyjar. Hér eru hins vegar nokkur góð ráð til að ráða við aðstæður í þessari merkilegu borg:
- Þægilegir gönguskór – þú heldur kannski að þú líðir eingöngu um síkin á bátum eins og í draumi… en sannleikurinn er sá að best er að skoða Feneyjar fótgangandi og steinlagðar göturnar eru ekki “fótavænar”.
- Þú skalt sleppa því að freistast til að kaupa “designer” vörur s.s. handtöskur, seðlaveski, skartgripi, geisladiska eða ilmvötn sem seldar eru “af gangstéttinni” nálægt hverri brú. Í Feneyjum er í gangi átak sem heitir Bad Bag og þú getur þurft að borga háa sekt ef það sést til þín þar sem þú kaupir eftirlíkingar.
- Hvað kosta gondólaferðir? Til eru opinberar gjaldskrár, s.s. 73 evrur fyrir 50 mín. ferð (hámark 6 manns) á milli 08.00 og 20.00, 91 evrur milli 20 og 08.00. Hins vegar er þessi gjaldskrá aðeins notuð sem viðmiðun í raun af hinum skemmtilegu “gondolieri”… svo best er að spyrja hreint út ÁÐUR en ferðin hefst hvað hún kostar. Yfirleitt bjóða “gondolieri” í hverfinu Dorsoduro besta verðið og mjög skemmtilegar ferðir.
- Feneyjar eru mikið völundarhús og ekki alltaf gott að finna beina leið þangað sem þú vilt fara. Það er auðvelt að finna mestu ferðamannastaðina, fylgdu bara fjöldanum… en prófaðu líka að fara út í skemmtilegar hliðargötur án þess að rýna alltaf í kortið. Það er alltaf hægt að spyrja íbúana til vegar og í litlum götum er oft að finna indælis veitingastaði, verslanir, friðsæl síki, kirkjur og falleg torg – oft vel falin.
- Það er oft erfitt að heimsækja Feneyjar að sumarlagi þegar hitinn er sem mestur og mannfjöldinn líka. Það er þess vegna gott að taka daginn snemma og vera á ferli fyrripart dags og svo aftur þegar fer að kvölda. Miðbikinu úr deginum má verja til þess að fá sér blund eða heimsækja loftkæld söfn. Mundu að hafa á höfðinu.
- Einnig er upplagt að heimsækja einhverja af eyjunum Murano, Burano eða Torcello með “vaporetto”. Murano er fræg fyrir glerblástur, Burano býður upp á blúnduverk og Torcello er yndislega gróðursæll og kyrrlátur staður sem er næstum óbyggður.
- Þegar þú ferð á veitingastaði skaltu ekki láta þér bregða þegar reikningurinn kemur. Þjónustugjald sem bætist við er 12% og gjald fyrir “coperto” þ.e. brauð og borðbúnað er gjarnan 1 – 2 evrur. Athugaðu einnig að ódýrir veitingastaðir selja oft gosdrykki og vatn á uppsprengdu verði. Sjávarréttastaðir verðleggja oft fiskréttina eftir þyngd.
- Ef þú vilt virkilega fá skemmtilega sýn á Feneyjar, skaltu vakna um sex leytið og njóta þess að horfa á Grand Canale eða Piazza San Marco í morgunmistrinu þegar fáir sem engir eru á ferð.
- Það getur núorðið gerst á hvaða árstíma sem er að það flæði í Feneyjum…Acqua alta. Þá hringja bjöllur og sírenur koma í kjölfarið. Háir tréplankar eru settir upp til að ganga eftir, stígvél eru alls staðar til sölu og kort sem sýna hvernig hægt er að komast framhjá því versta, eru hengd upp. Þvoðu þér vel ef þú kemst í snertingu við vatnið, því það getur verið mengað.