Það vita allir sem eitthvað ferðast að það er hreint ekki sama hvar setið er í flugvélum og hér er ekki verið að tala um muninn á t.d. Saga class og almennu farrými.
Sæti við ganginn eru almennt talinn heilsusamlegust því þar er auðvelt að standa upp og teygja úr sér sem getur skipt máli í löngu flugi. Gluggasætin eru hins vegar þægilegust fyrir þá sem ætla að fá sér "kríu" á leiðinni.
Það er oft hægt að finna kort af sætum flugvélanna á vefsíðum flugfélaga, en einnig er hægt að skoða vefsíðuna Seatguru.com sem býr raunar yfir margvíslegum öðrum upplýsingum.
- Reynið að forðast sætin við ganginn rétt við salerni flugvélarinnar. Þeir sem fljúga mikið segja að þessi sæti séu verri en öftustu sætin sem ekki er hægt að leggja aftur.
- Þegar flogið er snemma morguns, er snjallt að bóka ekki sæti þeim megin sem sólin kemur upp til að fá ekki morgungeislana beint í augun.
- Ef ykkur langar til að fá gott útsýni yfir ský og landslag, þá ætti að forðast gluggasætin sem liggja beint yfir vængjum vélarinnar.
- Ef þörf er á meira plássi fyrir fæturnar, er ráð að biðja um sæti í röðinni þar sem gengið er út úr vélinni. Þó er til í dæminu að sum flugfélög taki aukagjald fyrir þessi sæti og ekki víst að þau fáist ef börn eru með.