Að ferðast eða ekki?
Hjá sumum ferðalöngum er staðan einfaldlega þannig að eingöngu er hægt að ferðast til annarra landa með heilmikilli útsjónarsemi. Ferðalangur hefur hins vegar oft heyrt eftirfarandi setningu: "Ef ég get ekki farið til útlanda með stæl, þá sleppi ég því frekar". En kannski er þarna einhver millivegur - veröldin er nú einu sinni hvorki svört né hvít.
Hér fyrir neðan koma nokkur sparnaðarráð og eru mörg þeirra fengin að láni af vefsíðunni journeywoman.com. Sum lúta að því hvernig spara má í tengslum við gistingu (enda oftast dýrasti þáttur ferðarinnar) en önnur varða t.d. mat, netið, söfn, flug og fleira.
Námsmaður - ellilífeyrisþegi?
- Mundu eftir að taka með þér skírteini/skilríki t.d. inn á söfn o.fl. sem sanna að þú sért ýmist námsmaður/ellilífeyrisþegi o.þ.h. - margir staðir veita afslátt út á þetta. Varðandi eldri borgara er misjafnt eftir löndum við hvaða aldur er miðað.
Söfn
- Sum söfn eru ýmist ókeypis eða bjóða frítt inn á ákveðnum dögum eða ákveðnum tímum dags.
Hjólatúrar
- Ef þú ert að fara í hjólatúr erlendis og ætlar ekki að taka þitt eigið með, getur borgað sig að kaupa notað hjól á staðnum og selja svo í lokin/taka með heim í stað þess að leigja...
Lesefni
Það er dýrt að kaupa bækur/lesefni erlendis og vegur þungt í farangri. Sum hótel bjóða upp á taktu eina bók/skildu aðra eftir - en svo er líka snjallt að kaupa notaðar bækur og selja ýmist aftur eða skilja eftir.
Listi yfir vinsælar enskar bókabúðir í ýmsum löndum og heimshlutum
Gisting
- Skiptu á íbúð t.d. á síðunni Homeexchange - eða leigðu þér íbúð þar sem þú getur eldað. Sjá ókeypis bækling Ferðalangs um íbúðaskipti.
- Í stað þess að dvelja á hótelum geturðu gerst meðlimur í Servas - alþjóðlegum samtökum fólks sem ferðast og er líka til í að taka á móti gestum í 2 nætur (eða meira) og kynnast þeirra lífi og háttum.
- Women welcome women - alþjóðlegur félagsskapur kvenna sem auðveldar félagskonum að heimsækja hver aðra og jafnvel að gista.
- Athugaðu með gistingu í heimavistum háskóla á sumrin. Þær eru hreinlegar, þægilegar og ódýrar. Morgunmatur í boði og oftast góðar samgöngur. Sjá lista yfir heimavistir frá Journeywoman.
- Gistu í klaustri fyrir lægri upphæð en á hóteli. Til er bók sem heitir Good Night & God Bless 1 sem veitir góðar upplýsingar um klaustursgistingu í Evrópulöndum eins og Austurríki, Tékklandi og Ítalíu og hins vegar Good Night & God Bless 2 um klaustursgistingu í Frakklandi, Bretlandi og á Írlandi.
- Þegar þú pantar gistingu - hafðu augun opin fyrir ókeypis aðgangi að netinu, morgunmat sem er innifalinn og öðru sem sumir gististaðir s.s. hostel bjóða frítt.
Flug
- Prófaðu að leita að flugi í miðri viku - það er oft ódýrara en um helgar og dagana í kringum helgarnar. Þriðjudagar og miðvikudagar gætu komið vel út.
Fatnaður
- Skoðaðu búðir sem selja notuð föt á áfangastaðnum. Það sem getur verið "úrelt" í einu landi, getur verið í tísku í öðru. Fyrir utan að ef þú ferðast land úr landi geturðu skilið sumt eftir án samviskubits...
Matur og drykkur
- Það er mun ódýrara að leyfa sér að borða vel í hádeginu en á kvöldin. Og ekki eins áberandi ef maður er kona - ein á ferð :)
- Drekktu það sem íbúar á staðnum drekka. Þú kannt að eiga þína uppáhalds víntegund heima - gott og vel. En hún kostar oft formúu annars staðar. Prófaðu eitthvað nýtt og smakkaðu bjór og/eða vín frá landinu sem þú ert að heimsækja. Og enn betra: Drekktu minna vín og meira vatn!
Þú þarft vatn en það þarf ekki alltaf að borga mikið fyrir það. - Allir þekkja vesenið á flugvöllunum þar sem ekki má taka með sér vatn í gegnum öryggishliðið. EN - það bannar þér enginn að taka tóma vatnsflösku með þér í gegn og fylla hana síðan þar sem er boðið upp á drykkjarvatn hinum megin hliðsins... - Á ferðalagi er síðan sniðugt að kaupa stóra vatnsflösku í stórmarkaði og eiga eina minni til að fylla á öðru hverju og ganga með í dagsferðum.
Vertu með á hreinu hvernig þú pantar vatn í mismunandi löndum. Í Frakklandi t.d. skaltu biðja um "une carafe d'eau" til að fá kranavatn í könnu - annars borgarðu fyrir vatn á flösku....
- Prófaðu að borða í mötuneytum háskóla. Hvort sem þú ert 18 eða 80 þá geturðu reynt að fara í mötuneyti háskólanna sem þjóna bæði námsmönnum og starfsfólki. Eða kíktu á matsölustaði í nágrenni háskóla og veldu staði sem eru þéttsetnir... líkurnar eru miklar á því að maturinn þar sé ódýr og ágætur.
- Gistu á hosteli og eldaðu þér matinn þar - þú getur tekið einfaldar uppskriftir með þér...
Finndu þér ódýran matsölustað og njóttu hans aftur og aftur. Það er engin regla sem segir að þú verðir að finna nýjan stað á hverjum degi. Það er líka gaman að gerast "fastagestur". Dæmi um notalegan stað í París: Café Med, 77 Rue St. Louis-en-Llle, í 4. hverfi nálægt Notre Dame. Staðurinn hefur u.þ.b. 12 borð og hægt að fá 3ja rétta matseðil fyrir 13 - 19 evrur.
- Keyptu þér fóðraðan bakpoka sem heldur t.d. ávöxtum, samlokum og drykkjum ferskum í dagsferðum.
- Það er hægt að borða mat annars staðar en á veitingastöðum... t.d. í görðum, á tröppum fallegra bygginga, o.s.frv. - Farðu í markaði, keyptu þér ferskt brauð og álegg og njóttu...
- Í löndum þar sem enska er ekki móðurmál og þú finnur veitingastaði með matseðil á ensku, þá má gera ráð fyrir að staðurinn sé ætlaður túristum að hluta og verðið skv. því...
- Í sumum tilvikum gæti komið sér vel að koma með að heiman þurrkaða ávexti ef þeir fást á góðu verði og taka með sem snakk í dagsferðir.
- Það er hægt að koma með að heiman pakka með "instant" haframjöli í graut og nota teketilinn á hótelberginu til að sjóða vatn til að blanda í mjölið - staðgóður óg ódýr morgunmatur ef hann er t.d. ekki innifalinn í verði.
Netið
- Það er óþarfi að láta kostnað hlaðast upp með því að nota sífellt netið í símanum þínum - finndu frekar ódýrt Internet café og sendu skilaboðin þín þaðan.
- Athugaðu hvar almenningsbókasöfnin eru. Þau bjóða oftast möguleika á að skoða dagblöð, ferðahandbækur, komast á netið ýmist ódýrt eða ókeypis o.fl. Vissirðu t.d. af The women's library í London?
Leikhús
- Leiksýningar? Oft ódýrara að fara á sýningar fyrri hluta dags en seinni - ef það er á annað borð í boði. Mjög þægilegt fyrir konur sem eru einar á ferð og vilja síður vera mikið á ferli að kvöldi til.
Samgöngur
- Ef þú ert vel skipulögð/skipulagður geturðu reynt að sleppa sem mest við að nota leigubíla. Þú getur oft notað almenningssamgöngurnar með góðum árangri en það kostar stundum smá undirbúning. Sjá frábæra vefsíðu, I Hate Taxis með ýmsum praktískum upplýsingum fyrir ferðalanga sem eru að koma í fyrsta sinn á ýmsa flugvelli o.fl.
Göngutúrar
- Búðu til þína eigin göngutúra, ýmist með því að undirbúa þig vel á netinu fyrir ferðina eða með því að hlaða niður á Ipod ókeypis göngutúralýsingum eins og t.d. Free Walks in London. eða búðu til þína eigin á Ipod....