Ferðalangar til Barselóna þekkja allflestir La Sagrada Familia, Las Ramblas (Römbluna), Santa Maria del Mar og Picasso safnið. Allar ferðahandbækur mæla með heimsókn til þessara staða og víst er að þeir eru áhugaverðir. En það eru til fleiri markverðir staðir í Barselóna, sumir e.t.v. svolítið utan alfaraleiðar.
Flestir ferðalangar stefna á hótelherbergi í gamla miðbæ Barselóna því þar er auðveldast að nálgast þekktustu staðina. En möguleikarnir eru ótal margir - hér er hægt að skoða hótel og fjölbreytta gistingu í Barselóna.
Gracia
Gracia er best þekkt sem hverfið sem hýsir Guell garðinn sem hannaður var af sérvitringnum og séníinu Antoni Gaudi. Í Gracia er þó að finna mun meira en garðinn, s.s. skemmtilegar verslanir, alþjóðlega veitingastaði og fjölskrúðugt næturlíf með börum og klúbbum á hverju horni og á hverju torgi. Dvöl í Garcia hverfinu hjálpar ferðalanginum líka til að lifa í þeirri blessunarlegu sjálfsblekkingu að ferðamenn í Barselóna séu tiltölulega fáir.. . Miðborg Barcelona er hins vegar aðeins í 2ja-3ja stoppa fjarlægð með jarðlestunum.
Poble Sec
Það er eiginlega óskiljanlegt hve margir fara á mis við Poble Sec. Fyrir utan þá staðreynd að það eru ekki ýkja margir gistimöguleikar í hverfinu, þá er það afar hentugt til dvalar. Þetta hverfi, sem liggur við rætur Montjuic hæðarinnar, er íbúðahverfi en þó í göngufæri við gömlu miðborgina. Hægt er að ganga upp hæðina að Olympíugarðinum (Olympic Park) eða njóta góðra veitingastaða og bara í hverfinu. Einnig er hægt að taka strætó niður á strönd (örfá stopp á leiðinni) eða kanna gamla miðbæinn.
Það er stundum auðvelt að gleyma að Barselóna býður líka upp á strendur og strandlíf fyrir utan allt annað. Með því að dvelja í San Marti, Poble Nou eða Barceloneta ertu nálægt prýðilega hreinum og góðum ströndum. Þessi hverfi voru áður sér þorp sem síðar voru sameinuð borginni. Þau eru í göngufæri við miðborgina (eða í nokkurra stoppa fjarlægð með strætó/jarðlest) en hafa sitt sérstaka andrúmsloft og stemningu.
Öðruvísi staðir til að skoða
Þegar þú hefur lokið við að skoða Sagrada Familia, rölt upp og niður Römbluna og notið Picasso safnsins, þá hvað?
- Parc Industrial - mjög skrítið fyrirbæri og verulega katalónskt. Nálægt Sants lestarstöðinni
- Parc Laberinth - Lítill garður sem stendur hátt fyrir ofan borgina í Horta hverfinu. 19 aldar garðvölundarhús og ljómandi hljóðlátur staður til að hvíla sig á erli borgarinnar
- Casa Vinçenc - stendur í lítilli hliðargötu í Gracia hverfinu - hannað af Gaudi undir arabískum áhrifum.
- Fundacio Tapies - listasafn í miðju Eixample hverfinu. Beygðu til vinstri frá Passeig de Gracia niður Arago strætið og leitaðu að byggingunni með vírgirðingunni utan um garðinn á þakinu!
- Teleferic de Monjuic - Kláfur upp á Montjuic hæðina. Þar býðst afar skemmtilegt útsýni yfir borgina. Kláfurinn í miðju hafnarhverfinu er ekki beint miðsvæðis en þó er þetta mjög góð leið til að fá öðruvísi sýn á Barcelona.
Þetta eru aðeins fáein "tips" til að benda á öðruvísi heimsókn til Barcelona. Hvert einasta hverfi hefur eitthvað sérstakt til að bera sem heillað getur ferðalanginn - sér í lagi þar sem hverfin gera sitt til að vera öðruvísi en öll hin...