EasyJet Holidays
Við horfum mörg löngunaraugum til sólarlanda eða stuttra borgarferða til að slaka aðeins á í öðru umhverfi. Þó er ekki víst að allir sem vilja geti leyft sér það um þessar mundir. Sumir geta það þó með því að sýna hagsýni og velja sér ódýrari ferðir og ódýrari gistingu.
Það er nefnilega hægt að njóta lífsins þó að rúmfötin á hótelinu séu ekki úr silki eða satíni og veggirnir séu ekki fóðraðir með listaverkum eftir Miro eða Picasso. Með öðrum orðum: Kannski getum við skroppið til sólarlanda án þess að fjárhagurinn fari á hvolf.
Ferðalangur vill benda þeim sem eru í sparnaðarhugleiðingum á að bera saman við íslenskar ferðaskrifstofur það sem nú býðst hjá EasyJet Holidays.
Flestir þekkja lágfargjaldaflugfélagið EasyJet og nú býður það í samstarfi við fleiri ódýrari sólarlandaferðir og borgarferðir þar sem lagt er upp frá fjölmörgum flugvöllum í Bretlandi. Má þar nefna m.a. London Gatwick, Stansted, Manchester, Glasgow og Edinborg. Það getur t.a.m. verið snjallt að sameina sólarlandaferðina og ferð til London eða Glasgow/Edinborgarmeð EasyJet Holidays og slá þannig tvær flugur í einu höggi.
Hægt er að velja um flugferð og gistingu í mismunandi útfærslum, t.d.
- allt innifalið
- fullt fæði
- hálft fæði
- bed & breakfast
- íbúðagisting m/eldunaraðstöðu
Þegar við berum saman, þá þarf að hafa eftirfarandi í huga:
- Við bætist auðvitað ferðakostnaður til London/annarra borga í Bretlandi
- Hugsanlega þarf að gista aukalega til að ná flugi áfram
- Reikna þarf með ferðum á milli flugvalla í einhverjum tilvikum
Hvaða lönd eru í boði fyrir sólarferðir?
Spánn, Egyptaland, Tyrkland, Grikkland, Kýpur, Portúgal o.fl.
Hvaða borgir eru í boði fyrir borgarferðir?
Barcelona, Róm, París, Amsterdam, Prag, Feneyjar o.fl.
Hvað þarf að varast þegar bókað er?
Þegar bókað er, þarf að skoða bókunina vandlega - því búið er sjálfkrafa að bæta inn á hana tveimur viðbótum: Þ.e. gjaldi fyrir ferðatöskur (fyrir 2) og gjaldi fyrir "transport" til og frá flugvelli við komu/brottför. Þetta getur í sjálfu sér verið hið besta mál - EasyJet tekur hvort eð er gjald fyrir hverja innritaða tösku og það er miklu ódýrara að bóka töskurnar á netinu en að greiða viðbótargjaldið á flugvellinum. - En kannski ætlar einhver að ferðast öðruvísi til og frá flugvelli og þá er einfalt að stroka þessa við bót út með því að krossa hana út.
E.t.v. finna hér einhverjir lausnir sem henta - en aðrir komast að þeirri niðurstöðu að þeim henti best að fara héðan frá Íslandi. Ferðalangur óskar ykkur góðrar ferðar - hvaða leið sem valin er.