Ferðalangur hefur sérstakt dálæti á pistlum um hvernig skuli pakka fyrir ferðalög. Hér kemur einn dulítið stolinn og stældur (frá About.com).
Það ku vera snjallt að safna saman öllu sem á að fara í ferðina og skipta því í þrjár hrúgur:
1) Nauðsynlegur farangur
2) Ekki eins nauðsynlegur farangur
3) "Gæti komið sér vel" farangur
Þegar því er lokið er kemur að erfiða hlutanum: Taktu nauðsynlegu hrúguna og u.þ.b. helminginn af "ekki eins nauðsynlegu" hrúgunni og láttu það duga. Þetta kann að hljóma yfirmáta dramatískt en er samt byrjunin á þeim því að taka ekki allt of mikið með sér.
Ef þú fylgir þessum ráðleggingum, þá ætti einungis að standa eftir farangur sem rúmast í einni handfarangurstösku. Stærð hennar kann að fara svolítið eftir því um hvaða flugfélag er að ræða en það er um að gera að halda sig við þá stærð sem öll flugfélög geta sætt sig við. - Þú átt margsinnis eftir að þakka sjálfum þér fyrir að hafa ekki tekið meira þegar þú arkar upp þrjár hæðir til að komast í ódýra hótelherbergið þitt; treðst inn í neðanjarðarlestina og síðast en ekki síst lítur ÞÚ mun betur út þegar þú ert bara með eina litla tösku heldur en t.d. nokkrar eða eina níðþunga!
Slepptu stóru og þungu hlutunum sem eiga alls ekki heima í farangri s.s. stórum tannkremstúbum, stórum glösum með linsuvökva o.s.frv. Það er nefnilega hægt að kaupa minni túbur/glös eða einfaldlega að versla hlutina á áfangastað. Það er lítið vit í að pakka hlutum sem hægt er að kaupa tiltölulega ódýrt á ferðalaginu. Bara það að þurfa að kaupa tannkrem gefur þér góða afsökun fyrir að skreppa í búð sem annars bara íbúar staðarins versla í.
Það eru til ýmsar leiðir til að þvo af sér á ferðalagi. Mörg hótel bjóða slíka þjónustu fyrir sæmilegt verð, á öðrum kostar það morð fjár. Svo er hægt að þvo af sér í vaskinum og láta þorna yfir nótt og með það í huga er gott að pakka fatnaði sem er fljótur að þorna.
Svo er líka snjallt að velja fatnað sem hentar við mismunandi aðstæður s.s. sundbuxur karla geta einatt verið stuttbuxur líka á heitum degi. Stuttermabolur getur líka nýst sem nátttreyja - kannski ekki spennandi hugmynd en samt gerleg ef á þarf að halda sér í lagi þegar leitað er leiða til að minnka farangurinn. Smá ábending: Sumir pakka fötum sem þeir eru minnst hrifnir af og skilja þau síðan eftir þegar haldið er heim.
Þegar líður á ferðina er gott að eiga t.d. nylonpoka til að setja í óhreint tau sem ekki á að þvo fyrr en heima. Sami poki getur dugað ágætlega undir viðkvæma minjagripi...
Það er gott að hafa skó til skiptanna, sér í lagi ef mikið er gengið eða von er á misjöfnu veðri. Ef líklegt er að þeir verði skítugir, er ágætt að taka með nokkra (skó)plastpoka til að vernda hreinu fötin í töskunni. Skóna má svo nota sem geymslupláss fyrir litlu hlutina sem auðveldlega geta týnst í töskunni t.d. lykla, lítil rafmagnstæki, smápeninga o.fl.
Gættu þess að pakka öllum skjölum (kortum o.fl.) þannig að þau liggi ofan á og það sé auðvelt að finna þau. Það margborgar sig í mannmergðinni á flugvöllum og lestarstöðvum. Ekki þó pakka vegabréfinu eða brottfararspjaldinu - hafðu þau á þér í öruggu veski sem er alltaf næst þér. Það er ekkert mál að fá sér nýtt kort ef einhverjum dettur í hug að seilast ofan í tösku hjá þér, en meira mál ef hitt týnist.
Passaðu að farangurinn þinn sé tryggilega merktur með heimilisfangi þínu á fyrsta áfangastað og að merkimiðarnir séu tryggilega festir við töskuna. Þó að við séum hér að tala um handfarangur þá getur ýmislegt komið fyrir hann líka þar sem margt fólk er samankomið. Hann getur jafnvel verið tekinn í misgripum þar sem töskurlíta oft svipað út. Það er mun auðveldara að stöðva einhvern með töskuna þína ef hún er klárlega merkt þér og sömuleiðis er einfaldara að vippa henni í "check-in" farangur ef flugfélagið skyldi óvænt heimta að taskan færi þá leiðina.
Sumir hlutir eiga ekki að vera í töskunni góðu. Jafnvel þó þú ákveðir að tékka inn töskuna og borga fyrir það (þar sem það á við) þá þarftu að ganga með á þér hluti sem ekki er auðveldlega hægt að bæta/redda. T.a.m. lyf og skilríki svo eitthvað sé nefnt.