Það úir og grúir af veitingastöðum í öllum ítölskum bæjum og borgum. Hvernig á ferðalangurinn að átta sig á því hvernig hægt er að finna góðan veitingastað?
Ferðalangur yfirheyrði ítalska vinkonu sína fyrir nokkru og fékk hjá henni nokkur góð ráð:
Ef þú vilt finna góðan veitingastað án þess að eyða um efni fram þá verðurðu að hugsa út í hverfið sem þú ert staddur í. Ertu í miðbænum? Ertu í vinsælu ferðamannahverfi? Þá geturðu nokkurn veginn gengið að því sem vísu að þú borgar meira fyrir matinn í slíku hverfi. Það er líka hætta á því að þú fáir ekki endilega betri mat þó hann kosti meira.
Skoðaðu vel matseðilinn sem finna má í glugga eða framan við veitingastaðinn áður en gengið er inn. Ef hann er prentaður, með mörgum mismunandi réttum (piatti) og þú færð á tilfinninguna að matseðlinum hafi ekki verið breytt lengi... þá eru líkur á að margir réttir séu ætíð tilbúnir fyrirfram. Slepptu því að fara inn á slíka staði. Ef þú hins vegar sérð handskrifaðan matseðil, eða matseðil á krítartöflu og aðeins fáa rétti, þá er trúlegt að matseðillinn breytist dag frá degi og aðeins sé notað ferskt hráefni sem býðst hverju sinni. Þetta veit á gott og líklegt að þarna sé eitthvað spennandi fyrir bragðlaukana.