Ferðalangur fékk sérlega skemmtilegan pistli frá íslenskri konu um ferð stórrar fjölskyldu til Króatíu og var góðfúslega veitt leyfi til að birta ferðasöguna ef vera kynni að hún gæti gagnast fleirum sem e.t.v. hyggja á ferð til Króatíu í framtíðinni.
Við vorum 7 fullorðin og 6 börn ( við hjónin, börnin okkar, tengdabörn og barnabörn). Við höfum farið nokkrar ferðir til útlanda öll saman og alltaf tekið hús á leigu, m.a. við Gardavatn, í Toscana og á Cape Cod, allt hafa þetta verið frábærar ferðir en við vorum sammála um að Króatíuferðin væri sennilega sú albesta.
Áfangastaðurinn í Króatíu var stórt hús með fínum garði og sundlaug í pínulitlu miðaldaþorpi, Tinjan, á miðjum Istriaskaganum.
Hluti fjölskyldunnar flaug út 2. júní, til München, þar sem teknir voru tveir stórir bílaleigubílar og ekið suður Austurríki með einni gistinótt í ágætri bændagistingu og síðan suður Slóveníu. Þar var að sjálfsögðu stoppað í Bled. Hinn hluti fjölskyldunnar flaug til Pula í Króatíu 3. júní, með millilendingu í Osló. Það er nefnilega regla í fjölskyldunni að við fljúgum aldrei öll saman í sömu vél (gamla konan ég fæ að ráða því!).
Í stuttu máli reyndist húsið, umhverfið og allur aðbúnaður alveg stórkostlegur. Húsið er gríðarstórt og auglýst með 18 svefnplássum en ég myndi mæla með því að ekki væru fleiri en 15 í hóp – sjá myndir og lýsingu á aðbúnaði á heimasíðunni þeirra: http://www.homeaway.com/vacation-rental/p496652
Við dvöldum þarna í Tinjan í góðu yfirlæti í tvær vikur í fínu veðri, hitinn ca. 22-25 gráður og aðeins einn rigningardagur. Þar sem við vorum með bílaleigubíla allan tímann fórum við vítt og breytt um Istriaskagann. Gömlu miðaldaþorpin eru töfrandi, strandbæirnir við vesturströndina afskaplega sjarmerandi, landið fallegt og fólkið mjög vinalegt.
Við eyddum nokkrum dögum í Rovinj, Porec og Pula og leigðum m.a.s. skútu með skipstjóra einn dag, sem sigldi með okkur inn í botn á Limafirði ( Limski Kanal), þar sem er frábært sjávarréttaveitingahús. Svo fengu þeir sem það vildu að synda í sjónum, krökkunum til mikillar ánægju.
Þá fór einn dagur í að heimsækja þjóðgarðinn þar sem Titó hafði sumarhúsið sitt, Brijuni eyjarnar.
Brijuni-eyjarnar - Hof Venusar
Af mörgum góðum stöðum var kannske alskemmtilegast að eyða einum degi í afskaplega fallegu litlu miðaldaþorpi sem stendur á hæð ca. 25-30 km. beint í norður frá Tinjan, sem heitir Motovun. Það er ævintýralegt og þar eru boðnar til sölu ýmsar gerðir af heimagerðri truffluolíu úr hvítum og svörtum trufflum í pínulitlum búðum og auðvitað er manni boðið að smakka á herlegheitunum. Þar fékk ég líka besta Grappa sem ég hef smakkað.
Þorpið Motovun á Istriaskaga í Króatíu
Eitt það allrabesta við aðstöðuna í Tinjan var sá lúxus að hafa kokk, hann fann alltaf til morgunverð, mjög góðan, og svo gat maður valið milli hádegisverðar og kvöldverðar. Eftir vel útilátinn morgunverð höfðu fæstir lyst á hádegisverði og því varð kvöldverður fyrir valinu þegar ekki var borðað úti. Allt var þetta ljómandi gott. Kokkurinn er jafnframt eigandi staðarins og býr í næsta húsi í þessu pínulitla miðaldaþorpi.
Vel gæti verið að í næstu ferð fjölskyldunnar yrði stefnan tekin annaðhvort á Slóveníu, sem er afskaplega fallegt land, eða þá aftur á Króatíu, og þá væntanlega á Dalmatíuströndina, sjáum hvað setur...