Dóná, Donau, Danube... Þetta næstlengsta fljót Evrópu (Volga er lengst) á upptök sín í bænum Donaueschingen í Svartaskógi (Þýskalandi) og rennur síðan í gegnum fjórar evrópskar höfuðborgir á leið sinni til Svartahafs, alls um 2872 km leið. Við sögu koma hvorki meira né minna en 10 lönd á einn eða annan hátt: Rúmenía, Ungverjaland, Serbía, Austurríki, Þýskaland, Búlgaría, Slóvakía, Króatía, Úkraína og Moldóva.
Víða er hægt að fara í skemmtilegar siglingar á þessu merkilega fljóti og hér fyrir neðan má sjá svipmyndir úr einni slíkri bátsferð þar sem siglt var á Dóná í nágrenni borgarinnar Regensburg í Þýskalandi, milli bæjarins Kelheim og klaustursins Weltenburg sem talið er að írskir eða skoskir munkar hafi reist árið 620 og er eitt elsta klaustur í Bæjaralandi.