Íbúðaskipti hafa verið oft til umfjöllunar í dagblöðum undanfarin ár enda hagstæður og skemmtilegur ferðamáti. Í Fréttablaðinu 29. september 2012 birtist skemmtilegt viðtal við Hervöru Ölmu Árnadóttur, en fjölskylda hennar hefur verið iðin við íbúðaskipti undanfarin ár.
„Með þessum íbúðaskiptum höfum við komist á staði sem við hefðum ekki annars komist á og kynnst fólki sem við hefðum aldrei kynnst. Við höfum komist nær þeim anda sem ríkir í hverju samfélagi fyrir sig og börnunum finnst þetta miklu skemmtilegra heldur en að húka inni á hótelherbergi. Þau kynnast krökkunum í hverfinu og geta farið út í fótbolta að leika sér.“
Kostir þess að hafa íbúðaskipti eru ótvíræðir að mati Hervarar. Þannig kynnist maður nýjum stöðum og nýju fólki og svo er þessi ferðamáti ódýrari. Hún segist ekki vera neitt stressuð yfir því að lána húsið sitt ókunnugu fólki. „Áður en lagt er í ferðalagið höfum við verið í tölvusamskiptum við tilvonandi gesti okkar. Hingað til höfum við til dæmis alltaf komið heim í hreinna hús en við fórum frá þannig að þetta hefur aldrei verið neitt mál hjá okkur.“ Fjölskyldan ætlar að halda áfram að hafa íbúðaskipti og hefur velt fyrir sér að fara um páska eða yfir langa helgi en hún hefur hingað til aðeins gert þetta á sumrin. „Við mælum algjörlega með þessum ferðamáta,“ segir Hervör.