Í hvers konar ferð ertu að fara? Sumarfrí? Borgarferð? Ráðstefnuferð? Vinnuferð? Rómantíska helgarferð? Fjölskylduferð með börnin?
Möguleikarnir eru margir og val á gistingu fer að sjálfsögðu eftir tilefninu hverju sinni. Það getur hins vegar verið heilmikið mál að finna réttu gistinguna - ekki síst ef þú ætlar að gista í margar nætur og vilt greiða hóflega fyrir. Eftirfarandi atriði gætu skipt þig máli:
- Verð gistingar
- Þjónustustig (dagleg þrif o.s.frv.)
- Fjarlægð frá miðbæ eða öðrum tilteknum stað
- Fjör eða rólegheit
- Rómantískt andrúmsloft
- Þægindi - lúxus
- Te/kaffiaðstaða í herbergi
- Eldunaraðstaða
- Aðgangur að netinu/þráðlaust net
- Líkamsræktaraðstaða
- Sveitastemning
- Umhverfi/útsýni
- Smábæjarandrúmsloft
- Stórborgarlíf
Þú getur valið úr mörgum tegundum gistingar.
Það er fljótlegt og þægilegt að nýta sér stórar hótelleitarvélar sem skila fjölda niðurstaðna sem síðan er hægt að velja úr. Þar er hægt að panta og afpanta á þægilegan hátt án þess að þurfa að hafa beint samband við hótelið sjálft.
Í einhverjum tilvikum, þó alls ekki alltaf, gætirðu ef til vill fengið hagstæðara verð með því að hafa beint samband við gististað. Það getur þó verið erfitt að finna vefsíðu tiltekins hótels í þeim aragrúa niðurstaðna sem fást í Google og sumir veigra sér við að tala/skrifa ensku. Ef þú leitar að hóteli, geturðu prófað að setja nafn þess í slóðina, s.s. www.nafnhotels.com (.co.uk, .de, .it o.s.frv. eftir því í hvaða landi hótelið er) en Ferðalangi hefur líka reynst vel að slá nafn þess og borg/bæ inn í Google Maps.
Staðsetning hótels eða annarrar gistingar getur skipt miklu máli. Ferðalangur leggur oft mikið á sig til að tryggja að staðsetningin hæfi vel erindinu í hvert skipti. Góðar samgöngur til og frá flugvelli, nálægð við það svæði sem mest er verið á - þannig sparast bæði tími og peningar.
Úrval hótela og gististaða er mikið og stærð þeirra fjölbreytt. Þau geta verið allt frá litlum, fjölskyldureknum gististöðum upp í stór hótel sem eru oft hluti af hótelkeðjum eins og Best Western, Marriott o.s.frv.
Oft er stjörnugjöf notuð til að flokka hótel. Í Evrópu eru 1 – 4ra stjörnu hótel algengust en 1 - 5 stjörnu í Bandaríkjunum. Þó eru til dæmi um allt að 7 stjörnu hótelum. Ágætt er að vita að það er ekki til neitt sem heitir alþjóðlegur stjörnustaðall og ósamræmi er áberandi milli landa og jafnvel innan sama lands eða sömu borgar. Þú skalt því taka allri stjörnugjöf með fyrirvara og hafa í huga að stærð herbergja, hvort hótelið er með eða án lyftu eða sundlaugar eru dæmi um hluti sem geta haft áhrif á stjörnugjöfina.
Það eru nokkrir hlutir sem þú skalt vara þig á við val á hótelum. Hótel auglýsa gjarnan að þau séu miðsvæðis – það getur samt verið langt frá miðbænum á okkar mælikvarða. Auðveldlega nokkra kílómetra. Ef það skiptir þig máli skaltu skoða staðsetningu hótelsins áður en þú pantar...á korti í Google Maps eða á ViaMichelin og athugaðu vel hversu langt er í þá staði sem þú þarft að fara á eða ætlar að heimsækja.
Fylgir morgunmatur með hótelherberginu eða þarftu að greiða hann sér? Ef greiða þarf hann sér, getur það verið dýrt og jafnvel betra að kaupa hann utan hótelsins á kaffihúsi eða í næstu matvöruverslun.
Eru góðar samgöngur frá hótelinu, t.d. í miðbæinn eða á flugvöllinn? Jarðlestir eða strætisvagnar?
Ef hótelið er án lyftu (algengt á ódýrari hótelum t.d. í London) geturðu reynt að biðja um herbergi á neðri hæðum ef það skiptir máli. Slíka beiðni er oft hægt að setja með pöntun í athugasemdir.
Skoðaðu vel reglur hótelanna um afpantanir — þær geta verið mismunandi. Einstaka tilboð er ekki hægt að afpanta og þá kemur það skýrt fram við pöntun. Almenna reglan er þó sú að ef afpantað er með meira en 24ra tíma fyrirvara er allt í lagi — annars þarf að greiða fyrir fyrstu nótt.
Hér á eftir eru nokkrir hótelleitarvefir sem þægilegt er að nota við leit að hóteli. Við bókun er beðið um kreditkortanúmer eingöngu til að staðfesta pöntun en þú greiðir ekki fyrir gistinguna fyrr en við komu eða brottför.
Booking
Uppáhaldsvefur Ferðalangs. Afar stór og vandaður hótelvefur sem býður gististaði af öllum tegundum í um 180 löndum. Hægt er að "matreiða" niðurstöðurnar á ýmsa vegu, t.d. eftir stjörnugjöf, verði, aðstöðu, fjarlægð frá tilteknum stöðum o.fl. Einkunnagjöf gesta og umsagnir er auðvelt að sjá og mjög þægilegt er að sjá strax staðsetningu hótelsins á korti (Google map). Þægilegt að afpanta ef þörf krefur.
- Venere
Venere býður gististaði víðs vegar um heiminn. Hægt er að skoða niðurstöðurnar t.d. eftir stjörnugjöf, staðsetningu og tegund gistingar þ.e. Hotels, B&B, Self Catering Apartments, Guest Houses, Studios og Other accommodation. Þægilegur og vandaður vefur.
- LateRooms
Þessi hótelleitarvefur er oft notaður af gististöðum til að setja inn tilboð með skömmum fyrirvara og getur þá verið um umtalsverðan afslátt að ræða. Ekkert hótel vill sitja uppi með auð herbergi og þetta er ein leið til að losna við þau. Góð tilboð eru í gangi víðsvegar um heiminn og fjölbreytt úrval gistingar.
- Hotel Club
Hotel Club býður hótel í 141 löndum. Oftast góð, hefðbundin hótelgisting. Margar þekktar hótelkeðjur. Hægt er að kynna sér umsagnir gesta, athugið að besta einkunn er 5,0.
Umsagnir um gistingu
Það er gagnlegt að skoða hvað aðrir hafa sagt um hótel eða gististað. Margir hótelbókunarvefir gefa notendum sínum kost á að gefa gististöðum umsagnir/einkunn fljótlega eftir að dvölinni lýkur sbr. Booking og Venere. Þannig er auðvelt að sjá allar umsagnir um leið og gististaðurinn er skoðaður á netinu. Einnig er hægt að nota Tripadvisor til að fletta upp hótelum (efst í leitarglugga á síðunni) og skoða umsagnir. Þó skyldi maður ekki taka umsagnir alltof bókstaflega, horfa svolítið framhjá þeim bestu og verstu því líklega leynist sannleikurinn einhvers staðar þar á milli.