Hvert á að fljúga og hvað er hagstæðast?
Ef þú ætlar einungis að fljúga á milli tveggja staða, þ.e. frá Íslandi og til borgar erlendis, er nokkuð fljótlegt að gera samburð á milli flugfélaga, sjá síðuna Flug til og frá Íslandi.
Ef þú ætlar að fljúga lengra, t.d. tvo – þrjá flugleggi, getur borgað sig að eyða góðum tíma í samanburð og gefa sér tíma í flugleitarvélum og á síðum einstakra flugfélaga. Sá tími getur margborgað sig. Dæmi um flugleitarvélar: Dohop.com og Skyscanner.net. Fyrir lengra flug, t.d. til Asíu eða S-Ameríku er sjálfsagt að hafa Expedia.com og Ebookers.com með í myndinni.
Athugaðu einnig að stundum er hægt að fljúga á milli áfangastaða innan Evrópu fyrir mjög hagstætt verð ef þú nýtir þér flugmiðaútsölur lággjaldaflugfélaga eða ef þú getur pantað flug með góðum fyrirvara. Sum flugfélög, eins og t.d. Ryanair, eru með útsölur á nokkurra vikna fresti sem standa í nokkra daga.
Hafðu í huga að til að fá ódýrasta fargjaldið á milli staða, þarf að skoða nokkrar vefsíður og gera samanburð. Það er engin ein síða eða flugleitarvél sem ávallt býður ódýrasta fargjaldið til mismunandi staða. Á því er engin "vísindaleg skýring" né aðrar gáfulegar ástæður.
Flug til fjarlægra landa
Ef þú ætlar til fjarlægra landa eða heimsálfa, er þjóðráð að kanna verð á flugi og ferðaskipulagningu hjá innlendum eða erlendum ferðaskrifstofum sem sérhæfa sig í slíkum ferðum. Það gæti komið á daginn að þær byðu jafnvel betur en hefðbundnar flugleitarvélar.
Tími/Verð
Skiptir mestu máli fyrir þig að komast sem fyrst á áfangastað? Eða skiptir meira máli að fá gott verð og stansa jafnvel á milli áfangastaða?
Ef þú getur nýtt þér dvöl í 1– 2 nætur á milli flugleggja, til dæmis í London, getur það komið vel út. Þá geturðu keypt flug áfram, oft með lággjaldaflugfélögum og hættan á að missa af tengiflugi vegna seinkunar hverfur. Ég vil líka benda á að British Airways hefur stundum komið á óvart með verð. Sérstaklega þegar pantað er með góðum fyrirvara og þegar ferðir á milli flugvallar og miðborgar eru reiknaðar inn í dæmið.
Það er til að mynda ódýrast að ferðast á milli miðborgar London og Heathrow flugvallar með jarðlest, Piccadilly Line, en dýrara að ferðast til og frá Stansted flugvelli og Gatwick.
Farangur
Ertu með mikinn farangur? Þarftu að geta innritað farangur alla leið?
Ef þú ferðast með lággjaldaflugfélögum geturðu í flestum tilvikum eingöngu innritað farangur fyrir einn fluglegg í einu – og mörg flugfélög hafa takmarkanir á farangri s.s. Ryanair og EasyJet. Að auki er nú í tísku að rukka aukalega fyrir farangur annan en handfarangur og oft mikið fyrir hvert aukakíló sem ekki er greitt strax við bókun á netinu eða áður en ferð hefst. Skoðaðu því vel farangursupplýsingar áður en þú bókar endanlega hjá lágfargjaldaflugfélagi.
Öryggi
Ef ferðaáætlunin þín er þannig að þú þarft að treysta á tengiflug þar sem ekki er mikill biðtími á milli flugvéla; vilt geta bókað farangurinn þinn alla leið; vilt geta borgað öll flug á einum stað — þá er líklegt að Icelandair henti þér vel frá Íslandi. Þar með ertu í einhverjum tilvikum búinn að gefa frá þér möguleika á lækkun kostnaðar. En ekki verður bæði haldið og sleppt. Þitt er valið.
P.S. Mundu að til er nokkuð sem heitir járnbrautarlestir.... og ef þú ert að ferðast milli staða á meginlandi Evrópu, er bráðsnjallt að kanna hvað það kostar að ferðast með lest og tímalengd ferða.
Hægt er að kaupa lestarmiða og lestarpassa hér.