"Þetta kemur aldrei fyrir mig. Ég er aldrei rænd/rændur! Ég passa mig…" Þetta eru algengar setningar meðal alltof margra ágætra ferðalanga.
Ferðalangur fullyrðir að þetta stenst ekki - til þess hef hann í starfi sínu sem fararstjóri orðið vitni að of mörgum tilvikum. Verst er að eiga við íslensku karlmennina okkar sem telja engan geta abbast upp á sig og ganga um með veskið í rassvasanum eða stuttbuxnavasanum...
Hvernig er hægt að minnka áhættuna á að vera rændur? Í skjalinu sem hægt er að sækja hér fyrir neðan eru ábendingar sem að hluta til eru byggðar á minni eigin reynslu og að hluta til á ágætri vefsíðu: How to protect yourself from pickpockets in Europe.
- Skildu eftir heima alla skartgripi sem þér er annt um, einnig verðmæt úr og vönduð veski/töskur sem þú vilt ógjarnan tapa. Ef þú ferð út með eitthvað af þessu, skartaðu þessum hlutum þá eingöngu í vinahóp, ekki á útimarkaðinum meðal ókunnugra.
- Hafðu eins lítið með þér af farangri og unnt er. Því minna sem þú hefur meðferðis, þess minni líkur á skaða auk þess sem þú hefur betri yfirsýn yfir hlutina þína.
- Reyndu að falla inn í umhverfið. Hér er ekki átt við að mála sig í felulitunum (!) heldur að auglýsa ekki með klæðaburði og atferli að hér sé "túristi" á ferðinni. Láttu eins og þú vitir hvert þú ert að fara. Ekki stansa á miðri gangstétt til að draga upp framandi peningaseðla til að læra á þá. Þú átt að vera búinn að því. - Hér gildir að sjálfsögðu annað um hópa sem ferðast saman og þurfa stundum að vera áberandi eða vel merktir svo að enginn týnist.
- Taktu ljósrit af öllum skilríkjum og gögnum áður en þú ferð að heiman, svo sem vegabréfi, farseðlum, ferðaáætlun og öðrum gögnum sem máli skipta. Skildu eitt eintak eftir heima, skannaðu og sendu þér annað eintak í tölvupósti, hafðu í snjallsímanum eða í Dropboxinu og taktu loks eintak með þér og geymdu á vísum stað - ekki þó hjá vegabréfinu. Þetta getur bjargað miklu ef þú verður fyrir óhappi.
- Taktu með þér auka vegabréfsmyndir. Það auðveldar hlutina ef þarf að útvega nýtt vegabréf.
- Vertu með "peningabelti" eða tauveski innan á þér, sem ekki er sjáanlegt utanfrá. Mér hefur líka reynst vel lítið klemmuveski, sem klemmt er innan á buxnastreng/pilsstreng. Í það komast kreditkort og nokkrir seðlar.
- Skiptu mikilvægum gögnum á a.m.k. tvo staði. Geymdu reiðufé í innri vasa/belti/tauveski og kreditkortið annars staðar. Ef eitthvað gerist, þá glatarðu ekki öllu.
- Haltu þig á fjölförnum leiðum, sérstaklega í stórborgum. Ekki stytta þér leið gegnum sund og þröng stræti og ekki vera einn á ferð að kvöldlagi. Spurðu hvaða hverfi skuli helst varast, t.d. eftir að dimmt er orðið.
- Vertu með eins lítið reiðufé á þér og kostur er - notaðu heldur kreditkortið til að taka út peninga við og við. Aldrei taka upp seðlabúnt úr veski til að borga fyrir eitthvað.
- Ef þú lendir í vandræðum og ert rændur, láttu þá eigið öryggi ganga fyrir reiðinni út í þjófana og aðhafstu ekkert. Láttu lögregluna vita og fáðu uppáskrifað að þjófnaðurinn hafi átt sér stað (fyrir tryggingafélagið heima). Gerðu þér engar sérstakar vonir um að endurheimta það sem stolið var ef um er að ræða venjulegan "vasaþjófnað".
- Huggulegasta fólk getur brugðið sér í hlutverk vasaþjófa, s.s. konur með ungabörn eða vel klæddir unglingar. Ekki láta plata þig til að hlusta á "sorgarsögur" t.d. á flugvöllum og á lestarstöðvum, þar sem einhver á ekki fyrir strætó, mat eða símtali. Auðvitað getur það verið satt, en það getur líka verið að einhver sé að dreifa athygli þinni...
- Haltu fast um veskið á mannmörgum mörkuðum, lestarstöðvum, í strætó og troðnum lestum. Reyndu að geyma ekkert verðmætt í bakpoka, a.m.k. ekki í utanáliggjandi vösum sem auðvelt er að opna.
- Settu ekki veski/tösku/bakpoka á stólbakið á veitingastöðum/ hraðbrautarsjoppum á meðan þú borðar.
- Varaðu þig á hópum sígauna (gjarnan konum og börnum) sem oft gefa sig að ferðamönnum á stöðum eins og í Róm og öðrum fjölsóttum ferðamannastöðum. Þetta er ekki sagt vegna fordóma, heldur af reynslu.
- Gakktu ekki með handtösku á öxl sem snýr út að götu. Á Ítalíu koma mótorhjólin stundum brunandi framhjá og ökumenn þeirra hrifsa töskurnar af gangandi vegfarendum…
Eftir öll þessi varnaðarorð mætti ætla að engum væri vært utan landsteinana. Það er öðru nær. Þú getur hins vegar valið að haga þér skynsamlega eða ekki...