Strætisvagnar, jarðlestir (the Tube) og áætlunarferðir á bátum – úr nógu er að velja. Auðveldast og þægilegast er að nota jarðlestirnar, ekki síst á háannatímum.
Ef þú ætlar að ferðast töluvert um borgina (jarðlestir, strætó, bátar o.fl.), e.t.v í nokkra daga, er ódýrast að verða sér út um Oyster kort. Kortið er hægt að kaupa víða, á lestarstöðvum, í sjoppum og öðrum verslunum (merkingar í gluggum) en einnig í gegnum netið og láta senda sér til Íslands. Ef þú ert hins vegar bara að ferðast einn dag eða svo, skaltu athuga með kaup á dagskorti.
Strætisvagnar
Rauðu tveggja hæða strætisvagnarnir í London hafa löngum þótt tilkomumiklir. Þeir voru fyrst notaðir eftir heimstyrjöldina síðari. Þeir voru styttri en hefðbundnir vagnar en gátu flutt fleiri. Með árunum hafa verið hönnuð nýrri módel m.a. til að taka tillit til fatlaðra.
Ef þú vilt taka því rólega og hefur nægan tíma, skaltu endilega taka strætisvagn og njóta þess að horfa á London eins og hver annar Lundúnabúi í rauðu tveggja hæða vögnunum. Auðvelt er að skipuleggja ferðir sínar með Journey Planner frá einum stað til annars á síðunni Transport for London – London Buses. Þar eru einnig aðgengileg leiðarkort sem skiptast niður eftir borgarhlutum.
The Tube - Jarðlestir
Búið var að byggja sex jarðlestarstöðvar í London árið 1854. Núna státar London af þriðja stærsta jarðlestarkerfi í heimi, 270 stöðvum og 402 km af lestarteinum.
Á vefsíðu jarðlestanna í London, London Underground, eru gagnlegar upplýsingar og kort af jarðlestarkerfinu. Þar er einnig Journey Planner þ.e. upplýsingar um hvernig best er að komast frá einum stað til annars og einnig um seinkanir og tafir á einstaka leiðum. Síðast en ekki síst er allt um fargjöld en Oyster kortið, er oftast hagkvæmasti kosturinn. Enn er þó hægt að kaupa dagskort (á pappír) sem getur verið ágætur möguleiki fyrir þá sem að stoppa stutt en þurfa þó að geta nýtt sér lestirnar nokkrum sinnum yfir daginn (gildir utan háannatíma).
Alls eru 13 leiðir sem hægt er að taka í jarðlestarkerfinu. Þær leiðir sem algengast er að taka í miðborginni eru einna helst Central (rauð), Circle (gul), District (græn), Northern (svört) og Piccadilly (dökkblá) sem gengur úr miðborginni alla leið út á Heathrow flugvöll (gættu þess að endastöðin sé Heathrow).
ATH: Þegar þú notar jarðlestirnar og tekur rúllustigana á lestarstöðvunum, er til siðs að standa hægra megin til að þeir sem eru að flýta sér, komist greiðlega framhjá. Það er svolítið neyðarlegt að vera fávísi ferðalangurinn sem kann sig ekki í rúllustiganum...
- Upplýsingar um hvers kyns aðgengi, m.a. fyrir fatlaða
- Nýjustu tilkynningar um jarðlestarstöðvarnar
- Transport for London: Upplýsingar um strætisvagna, sporvagna, lestir, bátsferðir o.fl. í London og nágrenni.
Bátsferðir - áætlunarferðir
Það er auðvelt að taka river bus á milli tiltekinna áfangastaða í London. Allar upplýsingar um það eru á Transport for London - London River. Þar er einnig Journey Planner eins og fyrir jarðlestir og strætisvagna.
Leigubílar - Taxi
Það er nánast skylda að prófa Black Cabs, hina hefðbundnu, svörtu leigubíla í London. Þar er nóg pláss fyrir þreytta fætur og innkaupapoka. Minicabs eru líka ágætur möguleiki.
Nokkur símanúmer:
- Black Cabs +44 20 7272 0272
- Mini Cabs +44 20 7387 8888
- Lady Cabs +44 20 7272 3300