Eftirfarandi ráðleggingar eru að hluta til ættaðar frá Frommers.com og koma frá þaulvönum ferðamönnum. Þeir vita sem er að það getur verið töluverð vinna að ferðast og erfitt á köflum.
Ferðalög snúast ekki bara um brosandi flugfreyjur og notalegt starfsfólk í gestamóttöku. Brosið er oft fljótt að hverfa eða „stirðna“ til dæmis þegar einhver aukakostnaður kemur ferðafólki á óvart.
- Ekki búast við of miklu
Ekki ferðast með of miklar væntingar. Það er auðvelt að búast við alltof miklu og verða svo fyrir vonbrigðum.
- Vertu alúðlegur
Gerðu þér og þeim sem þú hefur samskipti við þann stóra greiða að vera alúðlegur og almennilegur. Þú færð svo miklu betri þjónustu þannig og öll samskipti verða auðveldari. - Ekki pakka of miklu
Þetta skiptir miklu máli. Ágætt er að spyrja sig aftur og aftur þegar pakkað er: "Get ég verið án þess?" Og ef svarið er já, skilja það þá eftir. Þetta skiptir enn meira máli í ljósi þess að mörg flugfélög eru farin að rukka sérstaklega fyrir hverja innritaða tösku. - "Plan B"
Hversu einföld sem ferðaáætlunin þín kann að vera, er alltaf gott að eiga varaáætlun í farteskinu. - Vertu hæfilega varkár
Ekki treysta í blindni öllu sem þú lest og sérð. Kannaðu hlutina sjálfur til vonar og vara. Stenst þetta verð? Er það rétt sem stendur í ferðahandbókinni? - Afrit af passa
Ferðastu ávallt með afrit af passanum þínum, ýmist ljósrit eða jafnvel pdf og/eða mynd af passanum + helstu upplýsingum sem máli skipta í tölvupósti, í símanum þínum og jafnvel passamyndir til vara. Þannig gengur mun betur að fá bráðabirgðapassa ef hann týnist. - Góð hvíld
Við eigum það til vera úrill og pirruð ef við erum þreytt og illa fyrir kölluð. Þegar við höfum náð að hvílast, verða ýmsir hlutir að smámunum sem áður voru stórmál.