Hér er að finna fimm stærstu flugvelli í London og nágrenni. Á kortinu sést hvar þeir eru og fyrir neðan má finna nánari upplýsingar um hvern völl og gistingu í nágrenninu.
Ferðir til og frá flugvöllum í London og nágrenni
Gatwick
Flugvöllurinn liggur í ca 50 km fjarlægð suður af London. Ferð með Gatwick Express lestinni á Victoria Station stöðina tekur 30 mínútur (dýrasti kostur). Hægt er að taka lestir frá öðrum lestarfélögum sem kosta mun minna þó aðeins bætist örfáar mínútur við lengd ferðar. Einnig ganga rútur á milli flugvallarins og miðborgarinnar (ódýrast). Sjá vef Gatwick flugvallar.
Heathrow
Þeir sem eru á hraðferð geta tekið Heathrow Express lestina til Paddington lestarstöðvarinnar (15 mínútur). Hinir sem kjósa ódýrari ferðamáta geta einfaldlega tekið Piccadilly jarðlestina inn í miðborg London (u.þ.b. 40 mín). Sjá fleiri möguleika á vef Heathrow flugvallar.
London City
Flugvöllurinn er í borginni sjálfri. Samgöngur annast DLR (Docklands Light Railway) sem tengist jarðlestarkerfinu í London.
Luton
Luton flugvöllur liggur um 56 km fyrir norðan London. Hægt er að taka rútur frá nokkrum fyrirtækjum sem bjóða mismargar ferðir á sólarhring. Ódýrast er að taka Easybus. Sjá vef Luton flugvallar.
Stansted
Stansted flugvöllur liggur í 60 km fjarlægð norðaustur af London. Stansted Express lestin tengir flugvöllinn og Liverpool Street stöðina og tekur ferðin um 40-45 mín. Mun ódýrara er að taka rútur til og frá flugvellinum frá nokkrum fyrirtækjum (EasyBus, Terravison, National Express o.fl.) en þær taka töluvert lengri tíma. Ég myndi sjálf hika við að taka rútu á flugvöllinn fyrir heimflug eftir reynslu mína af því að sitja föst í einni slíkri í umferðarteppu á háannatíma. Ég náði vélinni en þar mátti ekki mínútu skeika. Sjá vef Stansted flugvallar.
Mjög greinargóðar upplýsingar um samgöngur til og frá flugvöllunum við London eru einnig á vef Transport for London.