Róm er einn af þeim stórmerkilegu stöðum hér á jarðkringlunni þar sem hægt er að upplifa mannkynssöguna í mörgum lögum.
Við hvert fótmál leynast ómetanlegar fornleifar eða listaverk, freistandi veitingastaðir, hrífandi götumyndir eða annað sem fær ferðamanninn til að andvarpa af einskærri hrifningu.
Oftast er fjallað um tímabil rómverska keisaradæmisins í tengslum við Róm en þá voru reistar menningarminjar eins og t.d. Colosseum (hringleikahúsið).
Endurreisnin, barokkið og nýklassíkin eiga sér einnig verðuga fulltrúa svo ekki sé talað um byggingar sem tengjast kristindómnum eins og Péturskirkjan.
Róm verður hreint ekki afgreidd á einum degi og heldur ekki á langri helgi þó sumir láti á það reyna. Varla er hægt að fara til Rómar fyrir minna en viku til að fá svolitla yfirsýn. Skemmtilegast er að vera búinn að lesa sér til um borgina fyrirfram, þannig fæst mest út úr ferðinni.