Róm er einn af þeim stórmerkilegu stöðum hér á jarðkringlunni þar sem hægt er að upplifa mannkynssöguna í mörgum lögum.
Við hvert fótmál leynast ómetanlegar fornleifar eða listaverk, freistandi veitingastaðir, hrífandi götumyndir eða annað sem fær ferðamanninn til að andvarpa af einskærri hrifningu.
Oftast er fjallað um tímabil rómverska keisaradæmisins í tengslum við Róm en þá voru reistar menningarminjar eins og t.d. Colosseum (hringleikahúsið).
Endurreisnin, barokkið og nýklassíkin eiga sér einnig verðuga fulltrúa svo ekki sé talað um byggingar sem tengjast kristindómnum eins og Péturskirkjan.
Róm verður hreint ekki afgreidd á einum degi og heldur ekki á langri helgi þó sumir láti á það reyna. Varla er hægt að fara til Rómar fyrir minna en viku til að fá svolitla yfirsýn. Skemmtilegast er að vera búinn að lesa sér til um borgina fyrirfram, þannig fæst mest út úr ferðinni.
Íbúar:
2.862 milljónir (2013)
Hérað:
Lazio
Gisting:
Hótel, íbúðir, B&B í Róm - sumarhús í Róm og nágrenni:
Íbúðaskipti:
Áhugasamir um íbúðaskipti í Róm
Ferðahandbækur:
Rome (Lonely Planet City Guides), Time Out Rome, fleiri handbækur um Róm
Bílaleiga:
Bílaleigubílar á mjög góðu verði
Tillögur að gistingu í Róm
- Hotel Domus Praetoria
Mjög gott tveggja stjörnu hótel. Lítið en huggulegt og í göngufæri við Roma Termini járnbrautarstöðina. Góðar samgöngur í allar áttir. - Hotel Le Clarisse al Pantheon
Mjög gott þriggja stjörnu hótel í 250 m fjarlægð frá Pantheon. Hótelið er í skemmtilegri 17. aldar byggingu. Aðeins fimm mínútna gangur á Piazza Navona og að Trevi brunninum. - Hotel Papa Germano
Ódýrt, látlaust hótel/hostel. Án íburðar en þægilegt. Hægt að velja um að dvelja í hótelherbergum eða í stærra herbergi sem tilheyrir hostelinu. Fimmtán mín. gangur frá Roma Termini lestarstöðinni og stutt í marga vinsæla staði. - Una Hotel Roma
Mjög gott fjögurra stjörnu hótel. Aðeins í 100 metra fjarlægð frá Roma Termini lestarstöðinni.
Ferðamannaskattur á gistingu
Í janúar 2011 tóku gildi reglur um aukaskatt á gistingu í Róm. Skatturinn á við um gesti 10 ára og eldri. Gildir í 10 daga.
- Ferðalangar sem dvelja á tjaldstæðum greiða 1 evru aukalega pr. nótt.
- Gestir í bændagistingu, heimagistingu (B&B), leiguherbergjum, húsum og í íbúðagistingu, greiða 2 evrur pr. nótt
- Gestir á 1-3ja stjörnu hótelum greiða 2 evrur aukalega pr. nótt
- Gestir á 4ra-5 stjörnuhótelum greiða 3 evrur aukalega pr. nótt
Besti ferðatíminn
Vorin og haustin.
Ákjósanlegt farartæki
Tveir jafnfljótir.
Aðal járnbrautarstöð
Stazione Termini.
Flugvellir
Fiumicino (Leonardo da Vinci) og Ciampino.
Skylduheimsókn
Colosseo, Foro Romano, Pantheon, Circus Maximus, Vatikanið - Sixtínska kapellan og Péturskirkjan (San Pietro), basilikurnar San Giovanni in Laterano, Santa Maria Maggiore og San Paolo fuori le mura, katakomburnar, Trevi brunnurinn (Fontana di Trevi), Piazza di Spagna (spænsku tröppurnar).
Markaðir
Útimarkaðir (götumarkaðir) eru almennt opnir kl. 07:00 – 13:00 mánudaga – laugardaga.
- Porta Portese er opinn á sunnudögum.
- Campo de‘ Fiori Elsti markaður Rómar, opinn daglega nema á sunnudögum. Fiskur, grænmeti, ávextir, krydd, eldhúsáhöld, dúkar og leikföng.
- Porta Portese Via Portuense og Via Ippolito Nievo. Aðal flóamarkaðurinn í Róm Sunnudagar kl. 06:30 – 14:00.
- Via Ostiense Notuð föt og antíkmunir.
- Mercato delle Stampe, Largo della Fontanella di Borghese. Gamlar bækur, tímarit og annað prentað efni.
- Via Sannio. Rétt við San Giovanni járnbrautarstöðina (leið A, metró). Föt og fylgihlutir
- Mercantino dei Partigiani, Piazza dei Partigiani. Lítill flóamarkaður, selur húsgögn og hluti frá fimmta og sjötta áratug 20. aldar. Gott verð. Opinn fyrsta sunnudag í hverjum mánuði (ekki þó í ágúst).
- Underground, Via Crispi nr. 96. Nýlegur flóamarkaður sem er haldinn á 4. hæð í bílahúsi á milli Piazza del Popolo og Via Veneto. Allt milli himins og jarðar. Opinn aðra helgi (laugardag og sunnudag) í hverjum mánuði.
Fræg torg
Piazza Navona, Piazza del Popolo, Campo de‘ fiori, Piazza di Spagna.
Varast
Vasaþjófa, töskuþjófa, betlara, hugmyndaríka þjófa sem finna upp á ýmsu til að dreifa athygli ferðalangsins, óvenjuleg „hjálpsemi“, ekki láta myndavélina af hendi til „hjálpsamra“ sem vilja aðstoða við myndatökur, vera með startgjald leigubíla á hreinu og tékka á því í upphafi ferðar.
Í staðinn fyrir...
Slepptu því að fá þér fokdýran kaffibolla og misjafna þjónustu á Piazza del Popolo. Skrepptu og fáðu þér frábæran ís eða kaffi á litla torginu Piazza San Lorenzo í Lucina sem er í 5 mín. göngufjarlægð frá Piazza del Popolo. Ísinn og kaffið fæst þar ekki gefins en þar halda Ítalir sig og þjónustan er mun betri.
Í staðinn fyrir að versla á Via del Corso þar sem þú finnur allar sömu merkjavörur og í öðrum borgum Evrópu, er upplagt að líta í búðir á Via Urbana, Via del Boschetto og öðrum hliðargötum í Monti hverfinu, einu af elstu og skemmtilegustu hverfum Rómar. Þar er allt sneisafullt af skemmtilegum tísku- og handverksbúðum og verðið ágætt. Einnig ýmislegt fyrir þá sem leita að handgerðum skartgripum, notuðum fötum (vintage) eða vörum fyrir heimilið. Þarna fæst allt.
Í staðinn fyrir að fylgjast með mannlífinu (hinum túristunum...) á Piazza Navona, er ráð að fara á torgið Piazza della Madonna dei Monti (eða piazzetta eins og íbúarnir kalla torgið), þar sem Ítalirnir halda sig frá morgni til kvölds.
Í staðinn fyrir að borga þig inn í minnismerkið um Vittorio Emmanuele til að njóta útsýnis, skaltu fara í garðinn Giardino degli Aranci (Appesínugarðinn) sem kostar þig ekki krónu. Hann er á Aventinehæðinni fyrir aftan Circus Maximus. Þar færðu frið og yndislegt útsýni, allt frá Pantheon til Péturskirkjunnar.
Skemmtilegt að versla
Leðurvörur, sjöl, bækur (t.d. með fallegum myndum úr gjafabúðum safna), tónlist (t.d. geisladiska frá götutónlistarmönnum sem þú kannt vel við), teikningar og vatnslitamyndir frá götulistamönnum, biscotti eða amaretti smákökur, þurrkað pasta.
Verslunargötur
- Via Urbana, Via del Boschetto og aðrar hliðargötur í Monti hverfinu.
- Via Condotti, Via Borgognona og Via Frattina, þrjár samhliða götur sem byrja nálægt Piazza di Spagna og enda við Via del Corso – lúxus tískubúðir.
- Via Cola di Rienzo (þekktust), Via Ottaviano, Viale Giulio Cesare, Via Candia – eitt af vinsælustu verslunarhverfunum í Róm, fjöldi kaffihúsa.
- Via Margutta er lítil gata í Campo Marzio hverfinu með listagalleríum, veitingastöðum og antíkbúðum. Á vorin og haustin umbreytist gatan í n.k. listasafn undir berum himni.
- Via dei Sediari, fræg fyrir framleiðslu húsgagna og ýmissa húsmuna
- Via dei Coronari, Via Giulia, Via Margutta, Via del Babuino og Via del Pellegrino eru þær götur sem hýsa flestar antíkverslanir.
Outlets og verksmiðjusala á tískufatnaði í nágrenni Rómar
- Castel Romano Designer Outlets
Um 15 mílur suður af Róm. Skutlur frá Termini eða nálægt Vatíkaninu þrisvar á dag. - Valmontone
Via della Pace, località Pascolaro, 00038 Valmontone. Skutluþjónusta. - Soratte Outlet
Piazza Felice Abballe, 1 00060 Sant’Oreste. Við hraðbrautina á leið til Flórens Boðið upp á skutluþjónustu til og frá hótelum í Róm. - Diffussione Tessile
Via Portuense, 1555. Suður af Róm í Pomezia. - Bulgari
Via Aurelia 1052. Í úthverfi Rómar.
Skemmtilegt hverfi
Það er vel þess virði að taka dag hinum meginn árinnar Tíber í hverfinu Trastevere.
Sérstakt safn
Museo della pasta, pastasafnið er einstakt í veröldinni. Nálægt Trevibrunninum (Fontana dei Trevi).
Almenningsgarðar
Villa Borghese, stærsti almenningsgarðurinn í Róm, staðsettur norður af Piazza di Spagna. Upphaflega vínakur á 16. öld.
Hátíðir
- Festival Internazionale del Film di Roma
Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Róm. Október-nóvember. - Rock in Roma
Tónleikar, frægar rokkhljómsveitir og tónlistarmenn. Júní – júlí. - Rome Vintage
Úrval tónlistar frá áttunda, níunda og tíunda áratug 20. aldar Júní – ágúst. - Luglio Suona Bene – “Júlí hljómar vel”"
Kvöldkonsertar í Cavea, Auditorium Parco della Musica, listamenn frá öllum heimshornum. Júní – ágúst. - International Chamber Ensamble
Kammertónlist, tónleikar og búningar frá viðeigandi tímum. Júlí – ágúst. - Estate Romana
Tónlist og fleiri uppákomur. Á sumrin.
Sérstakir dagar
Páskar, afmæli Rómar 21. apríl.
Hvaða rétti á að smakka í Róm?
- Buccatini Amatriciana
- Cacio e Pepe
- Scottaditto
- Saltimbocca alla Romana (kálfakjöt með skinku og salvíu)
- Pizza Bianca ("hvít pizza)
- Fiori di zucca (gjarnan djúpsteikt kúrbítsblóm )
- Pasta alla carbonara
- Pizza alla Romana (panta á kvöldin - yfirleitt ekki kveikt á ofnunum fyrr en þá)
- Pollo alla Romana
Hvaða vín á að prófa í Róm?
Frascati vín.
Það sem ekki allir vita
Árið 2012 opnaði Vincenzo Contincello sikileyskt bakarí, kaffihús og veitingastað í hjarta Rómar sem heitir Antica Focacceria San Francesco, Piazza della Toretta 38/40 (skammt frá Piazza di San Lorenzo í Lucina). Staðurinn er óvenjulegur að því leyti að þar er boðið upp á ýmsa rétti, brauðmeti o.fl. frá Sikiley en þó þykir einkum sérstakt ð eigandinn hefur staðið uppi í hárinu á ítölsku mafíunni og neitað að greiða „pizzo“ – mútufé til hennar. Hann kaupir einungis hráefni af aðilum sem hafa gefið það út opinberlega að þeir séu „anti-pizzo“. Það hefur ekki gengið þrautalaust fyrir sig þar sem mafían hefur skipt bróðurlega á milli sín slíkum stöðum í Róm sem og víðar. En það er gaman að styðja við slíka staði með því að sækja þá heim.
Skoðunarferðir í nágrenni Rómar
Hér eru nokkrar hugmyndir að skoðunarferðum sem geta tekið hluta dags eða allan daginn
- Vatíkanið og Péturskirkjan
- Via Appia Antica og katakomburnar
- Ostia Antica - Hin gamla hafnarborg Rómar
- Tivoli - Villa d'Este og villa Hadrians
- Orvieto - miðaldabær í Umbríuhéraði
- Tarquinia - Grafir Etrúska og safn
- Frascati - vínbær
- Ostia Lido - dagur á ströndinni
Fyrir "ekki ferðamanninn"
Heimsókn í hverfin Testaccio og Garbatella sem teljast síður en svo vinsælir ferðamannastaðir í Róm. Þetta eru hvorki hreinlegustu né best útlítandi hverfin í Róm, en það er alveg öruggt að þarna má finna málsverð á góðu verði sem er ekki síðri en annars staðar.
Gagnslausar upplýsingar
Mundu að henda smápening í Trevi brunninn til að tryggja að þú komir aftur til Rómar...
Fyrir börnin
Gladíatoraskóli
Myndband
Sýnishorn af alþjóðlegu verkefni "Rome reborn" sem fæst við að endurskapa Róm í þrívíddarmódelum á ýmsum tímum sögunnar. Fyrir allt áhugafólk um Róm og Rómarfara.